Project Description

Hörgsnes

Börn Söguganga Hringleið Gömul alfaraleið Jarðfræði Fornminjar

Erfiðleikastig1
Tími göngu 1/2 klst.
Lengd göngu 1/2 km
Hækkun 30 m

Hörgsnes er austanmegin í Vatnsfirðinum. Það einkennist af fallegum lágum og grónum sjávarklettum. Gróðurinn teygir sig upp í lágt nesið. Hér fremst í nesinu er svokallaður Gíslahellir hvar Gísli Súrson á að hafa dulist fyrir mönnum Barkar dygra. Hér er einnig að finna frístandandi klettadrang, Hörg, með holóttan grundvöll – trjábolsholur. Trjábolsholur eru einnig í klettunum í kring. Upp með Hörg og í gengum Hliðin í klettunum hér norðar lá forðum alfaraleið.

Stutt er að ganga að Gíslahelli. Stikuð gönguleið er að hellinum frá bílastæði, en hann er annars erfitt að finna í skóginum ef henni er ekki fylgt. Á skilti við hellinn stendur:

Hellirinn er fullkominn felustaður, þó hann sé kannski ekki vistlegur. Líkt og flestar Íslendingasögur segir Gíslasaga frá ósættum og hefnd og var Gísli fundinn sekur um mannvíg á vorþingi Vestfirðinga 96e, eftir að hafa veriði stefnt af andstæðingum sínum. Hann dvaldi í 14 ár í útlegð, en þó aldrei langt frá konu sinni er bjó á bænum Langabotni í Geirþjófsfirði. En Langibotn liggur norðvestur við friðlandið Vatnsfjörð. Gísli var stöðugt eltur af andstæðingum sínum sem að líkum fundu hann og börðust við hann á Einhamri. Þar var hann veginn, en þó ekki fyrr en hann hafði felt átta aðra menn.

Stikaða gönguleiðin heldur áfram til austurs og krossar þar gömlu alfaraleiðina um Hörgsnesið. Sjá má á klettunum á einum stað hvar umgangur manna og dýra hafa markað spor í klettana. Uppi í fallega veðruðum klettunum þar upp af er að finna trjábolsholur sem orðið hafa til við það að hraun rann yfir skóg. Trén konuðust innan úr og eftir varð hola. Skammt frá hömrunum er Hörgurinn, stakur klettadrangur sem allur er ,,ormétinn“, þ.e. trjábolsholurnar eru ef eitthvað meira áberandi í honum en klettunum ofar.

Einstaklega fallegur staður að heimsækja og útsýnið yfir Vatnsfjörðinn er innrammað af klettum og kjarri. Ekki er heldur úr vegi að ganga niður í fjöruna. Hér var mikið um sel áður en vegurinn kom fyrir nesið um miðjan áttunda áratug 20. aldarinnar. Selurinn sést þó enn og ef við erum heppin gæti kobbi kíkt upp úr sléttum firðinum því að hann er einstaklega forvitinn og kann ekki hvað síst að meta litrík klæði tvífætlinga.