BARÐASTRANDARHREPPUR – göngubók og kort 

Barðastrandarhreppur – göngubók  lýsir 44 gönguleiðum um Barðastrandarhrepp, rúmum 500 km af göngum þvers og kruss um hreppinn og hækkunum vel á 14.000 m, eða 13.726 m og er þó stór hluti leiðarinnar jafnvel undir sjávarmáli þegar við göngum Barðaströndina alla. Göngurnar eru af öllu tagi, frá 10 mín upp í 12 klst. Léttar og við allra hæfi og erfiðar og á færi færri, langar og stuttar, í fjöllum og á láglendi. Á vit fornleifa, sögunnar, gamalla alfaraleiða, nýrra gönguleiða, barnagöngur og hringgöngur. Allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Að auki er leiðsögn um allan Barðastrandarhrepp frá austri til vesturs, frá Skiptá í Kjálkafirði og að Skarðabrún í vestri. Við ,,lítum við“ á hverjum bæ, fræðumst um söguna og rifjum upp örnefnin sem svo oft segja svo mikið meira en geymst hefur í munnmælum.

Umfram allt reynum við það á eigin skinni að ganga um Barðastrandarhreppinn, hvort það er með fótum eða augum og finnum það hvernig landið liggur. Fylgjum línum í landslagi og upplifum erfiðið og þá krafta sem það útheimtir að ganga um landslag. Þannig getum við sett okkur í spor þeirra sem hér fóru um áður en þægileg farartæki voru til fararinnar. Það er þó e.t.v. ekki mikilvægast, heldur það að hver og einn upplifi Barðastrandarhrepp á sinn hátt – hann hefur allt að bjóða. Það er bara að finna hvað hentar, staldra við og njóta.

 

Auk bókarinnar kemur út teiknað þrívíddarkort með 12 gönguleiðum sem lýst er aftan á kortinu á íslensku og ensku. Kristbjörg Olsen myndlistarkona hefur sett sig í stöðu fuglsins og horft á Barðastrandarhrepp með augum þess er hefur yfirsýn – skyggnist yfir og sér víða. Kristbjörg nær að kalla fram einstaka upplifun fyrir áhorfandann, hjálpar honum að tengja og fá yfirsýn á landslag sem áður var bútað niður eða óþekkt – við finnum okkur heima. Kristbjörg hefur einnig teiknað bæina inn á kortið og sett inn örnefni. Kortið er á forsíðu heimasíðunnar en má jafnframt skoða nánar á: Barðastrandarhreppur – kort.

Björg Vilhjálmsdóttir hönnuður hannar útlit bókar og bakhlið korts, Kristbjörg Olsen myndlistarkona teiknar kortið auk íkona og smárra hústeikninga í bók, Ólafur Valsson kortagerðarmaður vann göngukort í bók, Guðlaug Einarsdóttir vann atriðaorðaskrá, Berglind Steinsdóttir sá um prófarkalestur, Hannes Björnsson þýddi texta á ensku og Prentsmiðjan Oddi hf prentaði og setti bók.

Tilnefning til Fjöruverðlauna 2017

Barðastarandarhreppur – göngubók hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna 2017 í flokki fræðabóka og bóka almenns efnis.