Barðaströndina mætti með góðum hætti uppnefna sem ,,Barnaströnd“ því að hún er afar barnavæn með sínum hátt í 40 km langa gula sandkassa og áhugaverðum stöðum sem auðvelt er að nálgast hvort heldur er upp til dala og fjalla eða niður við ströndina. Hér er líka mikið af berjum og sveppum síðsumars og veiði í vötnum og ám. Það getur líka verið gaman að gefa sér tíma til að horfa til himins og skoða fuglana. Þeir eru hér af öllum stærðum og gerðum og ekki er óalgengt að hingað flækist gestir frá fjarlægum löndum.
Fjaran hefur upp á ýmislegt að bjóða. Gaman er að rölta niður að flæðarmálinu og velta við steinum og gá hvort að þar leynist ekki líf, spriklandi marfló eða marglitur kuðungur. Einnig má grafa í sandhrauka sandormsins og gá hvort einhver er þar heima. En viljirðu ná á heimafólk er eins gott að vera fljót að grafa. Við krakkarnir lékum okkur að því ,,að ganga á reka“, en það þýðir að við röltum eftir ströndinni og athugðum hverju sjórinn hafði skolað á land í það skiptið. Þetta var ekki hvað síst spennandi eftir vestanstórveður, þá var ekki óalgengt að baujur og belgir læu út um alla fjöru. Í fjörunni er einnig ógrynni af skeljum og fallegum steinum og eitt sinn fann ég hér meira að segja rostungstönn.
SKELJABÚ
Það er skeljasandurinn sem einkennir Barðaströndina öðru fremur og hann er tilkominn af því að úti í Breiðafirði eru góð vaxtarskilyrði fyrir skelfisk. Skelfiskurinn deyr og skeljar hans myljast niður og mynda þessa fallegu strandlengju. Einnig reka hér á land heilar skeljar sem molna niður með tímanum og við getum glatt okkur með og farið í skeljafjöru og fundið fallegan hörpudisk eða mórauða gimburskel. Við krakkarnir áttum skeljabú og lékum okkur þar löngum stundum. Þar voru kúskeljar kýr, gimburskeljar kindur, hrútar og lömb, allt eftir stærð þeirra, öðuskeljar og bláskeljar hestar og kuðungar hundar. Þannig lékum við eftir störfum fullorðna fólksins og rákum myndarbú í tóftarbroti. Stækkun bústofns var lítið vandamál því að aðeins þurfti að fara í fjöruna og ná í fleiri skeljar.
HORNABÚ
Við krakkarnir lékum okkur einnig gjarnan í hornabúi. Við fengum hornin af kindum, lömbum og hrútum sem slátrað var á haustin, auk kálfa og kúakjálka og kúa- og kindaleggja. Hornin voru kindur, ærhorn ær, hrútshorn hrútar, gimburhorn og lambhrútshorn lömb af sitt hvoru kyninu. Kjálkarnir voru kýr og kálfar og leggirnir hestar sem við bundum band í og þeystum um á. Við útbjuggum hús fyrir bústofninn, stungum torf úr þúfu og börðum saman þak úr afgöngum af húsbyggingum foreldra okkar. Efniviðurinn var nægur því að uppbygging var á bænum. Dágóður tími gat farið í girðingavinnu með litlum spýtum og baggaböndum. Allt laut þetta sömu lögmálum og í raunveruleika foreldra okkar, sauðburður var tekinn alvarlega, rekið var á fjall og smalað og slátrað – allt eins og það átti að vera. Á haustin fengum við ný horn og hornunum var skipt á milli okkar og þar voru ær- og hrútshornin mun verðmeiri en lambshornin enda töluvert minna af þeim.
SJÓBÖÐ
Á heitum dögum þegar sólin hefur bakað sandinn yfir daginn og fellur að er sjórinn heitur og gott að baða sig í honum. Þetta stunduðum við krakkarnir mikið og það kallaðist þá ,,að fara í sjóinn“ en ekki sjóböð eða sjósund. Yfirleitt er grunnt nokkuð frá ströndinni og straumar ekki til travala fari maður ekki of langt. Það getur aftur á móti vakið ugg ef Kobbi skýtur allt í einu upp kollinum hjá manni – þá finnst sumum betra að koma sér á land. Selurinn er nefnilega sérlega forvitinn, ekki síst ef fólk klæðist litríkum klæðnaði. Sjóböðum fylgja einnig sólböð og það gerist merkilega oft á Barðaströnd að dvelja megi daglangt í fjörunni í sólbaði og sjósvamli með nesti og útbúnað til kastalagerðar. Það er sannarlega frábær dægrastytting.
SUNDLAUGAR
Tvær sundlaugar eru á Barðaströnd, í Laugarnesi neðan Krossholta og í orlofshúsabyggð í Parti í Vatnsfirði. Sundlaugin í Laugarnesi er 12,5 m löng og heitur pottur í við hana nærri í flæðarmálinu. Yndislegt er að liggja í heita pottinum og horfa yfir Hagavaðal þegar flóð er. Í Laugarneslauginni lærðum við Barðstrendingar að synda á sundnámskeiðum sem haldin voru á sumrin. Sundlaugin í Parti er barnvæn laug, grunn og með heitum pottum til hliðar. Nokkru innar, í flæðarmálinu niður af eyðibýlinu Hellu er heitur pottur, kallaður Potturinn. Hann er afar vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þar er líkt og í Laugarnesi, yndislegt að liggja og horfa á fjörðinn framundan af því að við erum svona rétt í flæðarmálinu.
GÖNGUFERÐIR
Barðaströndin býður upp á fjöldamargar stuttar og léttar gönguleiðir fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Á vit fossa, heitra potta, skeljumprýddrar fjöru og sjóbaða þegar sjórinn skilar sér aftur upp á sandinn sem sólin hefur bakað daglangt. Við getum líka kíkt á götóttan klett, ofan í útlagahelli og sett okkur í spor hans. Í Þverárdal og víðar er hægt að heimsækja gamlan stekk og er það stutt og skemmtileg ganga. Við getum líka lagt á stuttar heiðar eins og Fossárháls eða Lækjarskarð, jafnvel Sandsheiði ef börnin eru þokkalega stálpuð og veðrið hagstætt. Undir flipanum ,,gönguleiðir“ er að finna göngur fyrir alla. Það er bara að njóta en ekki þjóta. Börnin sjá um það – þau kunna að dvelja. Muna bara að þegar börn eru með í ferð er um að gera að hafa nægt nesti og aukaflíkurnar má ekki vanta.
ALSNÆGTIR NÁTTÚRUNNAR
Hér um slóðir er gnægt berja, aðalbláberja, krækiberja og bláberja – jafnvel svo mikið að heimamenn fúlsa við öðru en aðalbláberjunum. Fjölskrúðug sveppaflóra er einnig í Barðastrandarhreppi. Mikið af kúalubba, nokkuð af kóngasveppi, einnig mókempa, furusveppur og lerkisveppur – þó aðeins lítið, og heilmikið af öðrum tegundum. Veiði er í ám og vötnum og hægt að kaupa veiðileyfi í Vatsdalsá og Vatsdalsvatn. Þar er von á laxi, urriða og silung sem bragðast aldeilis vel þegar maður hefur veitt fiskinn sjálfur.
EN HVAÐ GERÐUM VIÐ?
Í mínum uppvexti voru margir krakkar á Barðaströnd og það var líf og fjör. Skólinn var miðsvæðis og við keyrð þangað á morgnanna og aftur heim í eftirmiðdaginn. Á sumrin var aftur á móti minni samgangur því að nokkur vegspotti er á milli bæja en við létum það þó ekki alltaf á okkur fá og fórum um 16 km leið á fótboltaæfingar og hafði félagsskapurinn þá meira að segja en boltinn sjálfur – a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð.
SKRIFUÐUM NIÐUR BÍLNÚMER
Já, hvað gerðum við krakkarnir á Barðaströndinni okkur annað til dundurs en upp er talið hér að ofan? Jú, við skrifuðum niður bílanúmer. Við vorum einstaklega vel í sveit sett við þessa iðju því að flóabáturinn Baldur kom að landi í næsta tanga innan við okkur a.m.k. tvisvar í viku. Þá vorum við mætt niður að vegi með bók og blýant og skráðum númer, lit og tegund. Þetta var nú reyndar aðeins gert á sumrin og þá gat maður jafnvel nælt í góðan bita og fengið x eða ö númer. Þetta var aldeilis spennandi leikur.
INDÍÁNA- OG KÚREKALEIKUR
Já, og við fórum í indíána og kúrekaleik og Bogi á Arnórsstöðum var með okkur og elti okkur uppi á Landrovernum út um alla Fit. Það var oft æsispennandi og leiksvæðið náði í um eins km radíus út frá heimilinu. Ég man eitt sinn eftir því að hafa legið undir ystu jötunni í fjárhúsunum á Seftjörn og Bogi við annan mann gekk um jötuna og var að leita! Fæ enn hjartslátt við tilhugsunina. Ef maður náðist var það svo sem ekkert agalegt, var bara úr leik og í fangelsi en aðalspennan var auðvitað að vera með í leiknum og nást ekki – vinna. Við vorum s.s. indánarnir og Bogi og hans fólk kúrekarnir. Þetta kristallaðist síðan allt í káboymyndunum sem stöku sinnum voru sýndar á RÚV og við sátum spennt yfir.
ÖFLUÐUM TEKNA
Já, og ýmislegt var hægt að gera til að afla sér fjár. Það kom okkur verulega á óvart hversu ormasala gaf vel af sér. Við vissum af góðum ormastöðum og notuðum ormana sjálf við að veiða í hyljum í Lækjaránni. Svo áttuðum við okkur á því að þetta væri eftirsótt söluvara fyrir fiskimenn frá kaupstöðunum í kring sem fóru í Vatansdalsvatn og Vatnsdalsá. Þar var oft hægt að fá mikinn pening fyrir ormana – a.m.k. á okkar mælikvarða. Svo fórum við út á Múla eða inn í Flókalund og keyptum okkur fyrir þennan pening. Ég man reyndar einnig eftir því að hafa nýtt mér Baldur til að kaupa tyggjó! Ekki amalegt að fá sjoppu heim að bæjardyrum tvisvar í viku. Þetta var þó sjaldan.
Já, við vorum ekki af baki dottin við að afla okkur tekna. Fyrir utan það að vinna við hlið foreldra okkar við búskapinn og sjómennskuna – grásleppuna, sem við gerðum frá blautu barnsbeini og vorum komin á sjóinn 11-12 ára gömul, hirtum við netahringi og belgi sem rak á land og hugðumst selja á Patreksfirði. Ég man reyndar ekki eftir því að við höfum gert það en markmiðið var skýrt. Einnig söfnuðum við ull sem við fundum í girðingum og í úthaganum og seldum í kaupfélagið á Patreksfirði og áttum þar innistæðu sem við gátum tekið út vörur á. Þetta hljómar auðvitað alveg fáránlega – en svona var þetta og var bara ljómandi skemmtilegt.
FÆRÐUM BJÖRG Í BÚ
Kríueggjaleit var í uppáhaldi. Mikið kríuvarp var á Barðaströnd í mínum ungdómi og við krakkarnir nýttum það til að færa björg í bú. Gerðir voru út leiðangrar upp úr mánaðarmótunum maí – júní, best var ef rigning hafði verið daginn áður – þá var von á góðu. Leikreglurnar voru að taka eggin framan af og leyfa kríunum svo að unga út. Eitt egg í hreiðri var garantí fyrir nýju eggi, einnig voru tvö í lagi svona framan af en þrjú létum við alltaf vera því að það var víst að þau væru orðin stropuð. Þetta var ekki langur tími af árinu en yndislegt að koma heim færandi hendi og fá grjónagraut, hveitikökur og kríuegg í matinn. Betra gerðist það ekki.