Project Description

Leikvallar- og Mórudalsvegur á Fossheiði

Mórudalur

Söguganga Hringleið Gömul alfaraleið Fornminjar

Erfiðleikastig1
Tími göngu7 klst
Lengd göngu16,5 km
Hækkun490 m
Skoða á korti Tungumúlafjall

Umhverfis Tungumúlafjall frá Tungumúla inn að Vegamótum og niður í Mórudal. Skemmtileg leið um forna alfaraleið. Hér eru báðar leiðirnar um Fossheiði niður á Barðaströnd gengnar svo að hringleið verður úr.

Gamla leiðin um Fossheiði liggur upp frá Tungumúla fram Leikvöll þar sem gatan liggur tæpt uppi á háum hömrum, heitir Leikvöllur. Gatan er víðast hvar greinileg og víða upp hlaðin en týnist í kjarri hér og hvar. Þegar Leikvelli sleppir er haldið á brattann (óverulegan) meðfram Stórubrekku, upp Aurbrekku upp á Sjónarhól. Af Sjónarhóli sér fyrst heim að Tungumúla fyrir þá sem eru á leið norðan Fossheiðina. Leiðin upp að Vegamótum á Fossheiði þar sem leiðir skiljast niður í Mórudal eða um Leikvöll er átakalítil en löng og aflíðandi halli til norðurs. Þetta eru einir 2/3 hlutar leiðarinnar yfir Fossheiði. Upp af Sjónarhóli taka við Aronslautir, Neðri og Efri. Nokkru norðar er Skipahvammur, lágur aflíðandi hvammur niður í Arnarbýlisdalinn. Heitið gefur til kynna að hér hafi menn farið með báta yfir heiðina á hjarni.

Gatan þræðir sig áfram upp ónefndar lautir meðfram Urðarhjalla langt inn á fjall þar sem vörður varða leiðina að mestu. Gatan liggur undir Urðarhjalla en hverfur hér og hvar snemmsumars undir snjóskafla eða í melholt sem geyma illa gamlar götur líkt og skógurinn. Á háheiðinni standa menn á Vegamótum (490 m). Hér greinast leiðir niður í Mórudal eða um Leikvöll þegar Fossheiði er gengin. Menn sem áttu erindi inn á Barðaströnd fóru um Mórudal en þeir sem þurftu að erinda á Útströnd fóru niður Leikvöll. Einnig var Mórudalurinn farinn þegar Leikvöllurinn tepptist vegna snjóa og harðfennis.

Vegamótin eru magnaður staður, öflugar vörður og götuslóðar í þrjár áttir. Við göngum til austurs, leiðina niður í Mórudal. Hér standa vörðurnar reisulegar því að vandað hefur verið til verksins í upphafi og þær standa á traustum grunni – gaman  að sjá svo vel að verki staðið. Það er því auðvelt að rata, a.m.k. fyrst um sinn. Þegar neðar dregur er nokkuð um að vörður séu hrundar og ferðalangar þurfa að rýna í landslagið til að finna réttu leiðina sem liggur niður Geldingsdal og vestan til við Háána niður í Mórudalinn. Af háheiðinni er gott útsýni yfir Reykjafjarðarskarð og Kerlingardal sem er niður af því, línuvegurinn á milli Hornatáa og Tálknafjarðar liggur um Kerlingardal, það er sérstök ganga að fara hann, eina 30 km þvert á allt það sem ég hef áður farið.  Á milli Kerlingardals og Geldingardals sem við göngum sunnan megin í, er Tröllaháls. Upp af Geldingardal er Sjömannabani, hár klettastapi sem sagan segir að hafi orðið sjö manns að bana er þeir fóru um heiðina með bát en fóru örlítið sunnarlega í dalinn og gengu fram af bananum. [1]

Ferðafólk lækkar sig stall af stalli niður að brún Mórudals þar sem getur að líta ágæta vörðu, en þær hafa verið nokkuð brotnar síðasta spölinn. Útsýnið af brúninni er með því mikilfenglegra hér um slóðir – skógi vaxinn Mórudalurinn og svo Barðaströndin innan til við Hagavaðalinn, hann sjálfur og Hamarshyrnan. Óvenjulegt sjónarhorn og fallegt. Frá fyrri ferðum vitum við að leiðin liggur niður Mórudalstungur með Háánni og að greinileg gata er þar að sjá að neðan. „Talið er að þar séu átján sneiðingar“ segir í Barðstrendingabók,[2] en erfitt getur reynst nú á dögum að finna götuna ofan til vegna kjarrs og skriðufalla. Ráðlegt er að halda nokkuð í átt að ánni og rétt ofan til við þrjá fjórðu hluta hennar kemur maður inn á götu sem vissulega þarf að rýna í á köflum, en er oft greinileg og hlaðin. Glöggir geta skemmt sér við að finna götuna alveg upp á topp – en það reynist erfiðara í miðri brekku en neðan við hana.

Fremst í Mórudal mætast þrjár ár, Háá, Kerlingardalsá og Útnorðursá og mynda Móru. Um miðjan dalinn rennur Þverá í Móru og stækkar hún nokkuð við það. Gamla gatan liggur vestan Móru og yfir hana til móts við skógræktina, önnur leið liggur áfram að Tungumúla um Raftaskóg og Eyrarskóg. Við freystum þess að ganga gömlu götuna sem við finnum af og til á kafi í kjarri og algjörlega ófæra mest af. Það er þreytandi að fara um skóginn og mikið mý og því ráðlegt að hafa vargaskýlu með í ferð. Auðveldasta leiðin væri líklega með Móru norðan megin. Ferðin að bíl aftur við Tungumúla liggur fram með Tungumúlafjallinu og yfir Leitið sem heitir svo innan Tungumúla, þar upp af Jaðar þar sem leið lá beint upp Tungumúlann, upp og inn á fjallið. Bærinn Tungumúli heitir eftir lágreista múlanum yfir því. Vegurinn liggur eftir Reiðholti. Í heildina eru gengnir 16,5 km þegar hringnum er lokað við bíl sem bíður við Tungumúla. Þetta er 1,5 km lengra en Fossheiðin sjálf og um 490 metra hækkun. Þetta er skemmtileg og óvenjuleg hringferð sem tekur sex til átta tíma. Erfiðasti hluti leiðarinnar er að ösla kjarr, lyng og sinu heim Mórudalinn í lokin.

[1] Stofnun Árna Magnússonar, Sjömannabani. Sótt 21. sept. 2014 á slóðina: http://www.arnastofnun.is/page/ornefnapistlar_sjomenn

[2] Pétur Jónsson. (1942). Barðastrandarhreppur. Kristján Jónsson, ritstj. Barðstrendingabók. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

xt.