Project Description
3
5-8 klst.
10-14 km
122-235 m fyrir hverja tá
Fjalladrottningarnar – þarfnast ekki frekari skýringar. Hornatær eru fjöll margra og langt af eru þær einkennandi og fallegar, óraunverulegar, tignarlegar og dulúðugar. Þegar nær dregur eru þær enn tignarlegar, ef ekki tignarlegri, óárennilegar, illkleifar og heillandi – allt í senn og engu líkt að hafa dvalið á meðal þeirra.
Hornatærnar eru kóróna Vatnsfjarðarins, fjórir fjallatoppar, Ýsufell (703 m), Breiðafell (747 m), Klakkur (699 m) og Ármannsfell (706 m) og þekkt kennileiti langt að. Hornatær sjást lítt eða ekki af Barðaströnd en vel af Hjarðarnesi og úr Vatnsfirði og enn lengra að eru þær áberandi kennileiti, um og yfir 700 m fjallatoppar upp úr Vestfjarðahálendinu. Gaman er að ganga á tærnar, en talið er að þær ásamt Lónfelli hafi myndað sker í ísbreiðunni á síðustu ísöld þar sem þær eru um 200 metrum hærri en hásléttan í kring. Þegar jökullinn hopaði hrundu fjöllin að hluta og stórgrýtt er því undir Hornatám og gerir það göngu á þær erfiðari. Ganga á Hornatær hefst í Helluskarði á þjóðvegi 60 um Dynjandisheiði eða norðvestan þeirra af línuvegi út af vegi 63 niður í Trostansfjörð.
Ef ganga á á allar tærnar í einu þarf að hugsa sér heilan dag á göngu. Hækkun er rétt undir 800 metrar fyrir allar tærnar. Útsýni af Hornatám er stórkostlegt yfir allan Arnarfjörð, ,,Vestfirsku Alpana“ norðan Arnarfjarðar, Glámuhálendi, Lónfell, Auðnaöxl, Kikafell og útstrandarhálendi allt að Napa til vesturs. Gæta þarf varúðar á toppum tánna því að þverhnýpi er norður af þeim og ekki til uppgöngu.Hver og ein Hornatáa hefur sitt einkenni og sjarma. Ýsufellið er reisulegt og auðvelt uppgöngu með gestabók á toppnum. Ýsufellið nægir okkur e.t.v. og við getum notið útsýnis af fjallinu sem er stórkostlegt og horft til hinna tánna. Ef við viljum halda áfram og sigrast á fleiri tám er Breiðafellið næst. Það er einnig töluvert ágætt uppgöngu. Breiðafell er mikið um sig og hæst Hornatáa. Í því er skarð og við getum valið að ganga fyrst upp í það og svo á báða hnjúka þess. Hér sjáum við jöklasóley í miklum blóma. Af Breiðafelli er ágæt leið yfir á Klakk sem er erfiður uppgöngu og sérstakur og náttúran öll umhverfis hann tröllaukinn – björgin mikil undir honum og klettabeltin há en heillandi með fallegum skófum og klettamyndunum. Út úr Klakknum gengur þverhnýptur klettadrangur sem fjallið ber nafn sitt af. Gengt er út á klettadranginn en ókleift upp á hann. Það er sérstakt að vera hér innan um þessa hrikalegu fegurð og e.t.v. ekki fyrir lofthrædda.
Ármannsfellið er útvörður Hornatáa til vesturs og Breiðaskarð er á milli þess og Klakks. Um það lá alfaraleið fyrr úr Vatnsfirði í Trostansfjörð. Uppganga á Ármannsfell er sérstaklega góð eftir aflíðandi berggangi og fyrr en varir erum við á toppnum. Af Ármannsfelli er magnað útsýni yfir Arnarfjörð og toppur þess dúar undan fótum ferðalanga því að mosinn þar er þykkur og mjúkur. Leiðin til baka liggur annað hvort undir Hornatám að bíl í Helluskarði á þjóðvegi 60 eða um Breiðaskarð að línuvegi af þjóðvegi 63 og svo að bíl sem bíður okkar. Erfitt er að ganga um stórgrýtið undir Hornatánum á heimleið og e.t.v. best að velja hina leiðina ef við getum komið því við.