Project Description

Hreggstaða- og Skriðnafellsnúpur

Hringleið Jarðfræði

Erfiðleikastig3
Tími göngu 6 klst.
Lengd göngu 14,6 km
Hækkun 400 m
Skoða á korti Hreggstaða- og Skriðnafellsnúpur

Þrjár, jafnvel fjórar, flugur í einu höggi: Siglunes, Kringludalur og Hreggstaða- og Skriðnafellsnúpur. Hér er um þrjú merkileg náttúrufyrirbrigði að ræða, foss sem er manngengt á bakvið, dal sem er kringlóttur og Núp hvar náttúruvætti hafa fundist – trjábolsafsteypur fremst í Núpnum en þó er illgengt þangað og ekki ofan af Núpnum.

Nokkrar leiðir eru færar á Hreggstaða- og Skriðnafellsnúp. Hér er valið að gera lengri ferð úr fjallgöngunni og ganga hring frá Siglunesi um Flatafjall og Kringludal á núpinn. Lagt er upp frá Siglunesi beint upp með ánni að norðanverðu og skoðum fossana. Í Siglunesá eru fjórir fossar, sá neðsti neðan vegar heitir Hundafoss, Háifoss er ofan vegar, þá Undirgöngufoss og loks Hæstifoss.[1] Hér er alls staðar stutt niður á klöppina, ekki nema um 1,5 m jarðvegur og við erum áþreifanlega minnt á mótunarsögu landsins. Við göngum áfram upp aflíðandi brekkur Flatafjalls lyngivaxnar. Nafn fjallsins ber það með sér að það er ekki erfitt uppgöngu. En við förum ekki alla leið á topp þessa flata fjalls (389 m)heldur látum okkur nægja að ganga lyngi vaxnar brekkurnar í hánorður í átt að Kringludal og Hreggstöðum. Við göngum Grenishjalla inn dalinn. Ef hjallinn ber nafn með réttu er hér fornt býli lágfótu – jafnvel nýtt líka! Töluvert er af grenum hér í grennd og í næstu dölum ef marka má örnefnaskrár af svæðinu og örnefni.

Ekki er nauðsynlegt að lækka sig um hjalla inn í Kringludalinn því að Grenishjalli endar í aflíðandi brekku inni í dalnum. Við finnum okkur gott vað yfir Hreggstaðarána sem rennur því sem næst í beinni línu SV niður Kringludalinn ofan úr Veturlöndum ofar í dalnum. Haldið er sem leið liggur frá ánni í hánorður upp í Göngumannaskörð. Þegar upp er komið blasir Skarðabrúnin við göngufólki í vestri og suðri og Hreggstaðarnúpurinn í suðaustur átt. Héðan er mjög fallegt að sjá formfagran Kringludalinn – hreint ótrúlega kringlóttan, stall af stalli, Hreggstaðanúpurinn gengur fram norðan megin við hann, Skarðsbrúnin að vestan og Flatafjall að sunnan. Alla þessa formfegurð toppar Hreggstaðaráin sem „sker“ dalinn þráðbeint svo að segja hornrétt – ef hægt er í kringlóttum dal.

Ganga fram Núpinn er nokkuð drjúg, einir þrír og hálfur kílómetri, en þetta er góð og skemmtileg ganga á nokkuð sléttu undirlagi með hrauni inn á milli og hreint breiðstræti af og til. Útsýnið spillir ekki fyrir, alveg nýtt sjónarhorn á Barðaströndina blasir við í austurátt. Fjöllin sem næst okkur eru eru frá vestri til austurs: Haukabergsfell (573 m), Þórðarhyrna (608 m), Hrísnesnúpur (320 m), Miðhlíðarnúpur (417 m), Múlahyrna (524 m) og efst á henni Hagatafla (603 m). Innar heilsa ferðafólki Rauðsdalsfjall (511 m) og Arnórsstaðahyrna (458 m).

Ganga niður núpinn er ekki erfið en gott að vera búin að átta sig á leiðinni, hún hefst beint niður af litlum hóli vestan til við hæðsta punkt núpsins. Þaðan er gott að feta sig niður mosivaxna brekku og fara svo beint niður næsta stalli sem er ögn klettóttur. Þriðja klettabeltið er sýnu mest og þarf að þvera nokkuð innar í dalnum, en þar er lítil varða sem „varðar“ leiðina niður og kindagata – að sjálfsögðu – sem leiða göngufólk örugglega niður í gegnum klettabeltið. Þá er haldið sem leið liggur niður í átt að Hreggstöðum og eru engir fleiri farartálmar á leiðinni. Ekki er mikið úr vegi að ganga að ánni og dáðst að mikilfenglegum fossunum þar. Við göngum svo sem leið liggur niður á veg og út að Siglunesi.

[1] Örnefnaskrá, Siglunes, Gísli Gíslason o.fl. endurunnið 1980.