Project Description

Mávavötn

Hringleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 4 klst.
Lengd göngu 10 km
Hækkun 350 m
Skoða á korti Kerlingavatn og Mávavötn

Mávavötnin eru náttúruperla úr alfaraleið. Nokkuð drjúg ganga er að vötnunum og getur verið villugjörn. Nauðsynlegt er því að hafa gott kort og áttavita. Þeir sem ætla upp að Mávavötnum ættu að taka daginn í ferðina og hafa með sér nægt nesti og veiðistöng – hér getur verið von á loðsilungi! Ágætis undirlag en nokkuð kjarr við upphaf og endi ferðar.

Ganga að Mávavötnum hefst upp af gamla bænum á Þverá sem merkja má af grænum tóftahól rétt innan við sumarbústað sem nú stendur á Þverá. Gengið er upp frá Þverá upp Nautahjalla sem oft er erfiður yfirferðar vegna birkikjarrs. Þegar upp á hjallann kemur er stefnan tekin í norðvestur upp í Mikladal og meðfram Þverárfjalli, vestan megin við það. Fallegar klettamyndanir eru á Þverárfjalli og lítil vötn. Gott útsýni er yfir Mikladalinn sem annars er fólki hulinn því að hann liggur nokkuð samsíða Vatnsfirðinum á bak við Þverárfjall og kemur niður innst í Þverárdal. Nokkur spölur er inn fjallið en þegar Mikladal sleppir blasa Mávavötnin við eilítið norðar og í 337 metra hæð og enn má ganga nokkurn spotta þar til vötnunum er náð.

Einnig er hægt að ganga að Mávavötnum beint upp af orlofshúsabyggð í Vatnsfirði. Þá er stefnan tekin á hæsta hnúk í Parthjöllum upp af orlofshúsabyggð, eða lautu til hliðar við hann, markast hann mjög af vörðubyggingum og er því auðþekkjanlegur. Einhverjir stígar eru þar af og til. Þegar upp í lautina er komið er það allnokkuð bjarg eða grettistak og leyfum við því að vísa veginn áfram upp lautina og tökum stefnuna upp af miðjum Grenjadalnum í norðvestur austan til við Grenjadalsá, nokkuð upp í hæð. Þar uppi á fjöllunum eru Mávavötn. Leiðin sem sýnd er á gps-slóðinni er upp frá Seftjörn og þá er Kerlingardalur og Kerlingarvatn einnig heimsótt. Töluvert lengri leið en mjög skemmtileg og töluvert krefjandi.