Project Description

Arnórsstaðarhyrna – Blankur

Arnórsstaðarhyrna

Erfiðleikastig2
Tími göngu 3-4 klst.
Lengd göngu 10 km
Hækkun 456 m

 

Ganga á gott útsýnisfjall á Innströnd. Af sjó heitir fjallið Blankur þar sem það kemur stakt framundan Sigluneshlíðunum þegar siglt er fyrir Bjarg. Í landi ber það öllu jarðbundnara nafn, Arnórsstaðahyrna. Kennt við bæinn undir og er veglegt bæjarfjall. Nokkrar uppgöngur eru á Arnórsstaðahyrnu.

Hvar skal byrja? Uppganga á Arnórsstaðarhyrnu er fær frá ýmsum stöðum. Hér veljum við að fara upp frá Rauðsdal, inn dalinn, upp í Rauðsdalsskarð og fram Arnórsstaðarhyrnuna á misgóðu undirlagi. Eins mætti hugsa sér að fara upp með Búðinni, áberandi bjargi út úr fjallinu innan Rauðsdals og þar upp á brún. Það er þó mjög brött leið. Ennfremur má fylgja jaðri Arnórsstaðarhyrnunnar upp innan Rauðsdals og komast þannig á toppinn. Nú eða fara öfuga leið við það sem hér er lýst, upp frá Moshlíð og niður hjá Rauðsdal eða sömu leið til baka og gera þetta þá að hringleið.

En við höfum valið að ganga upp frá Rauðsdal og það er leið sem er ágætlega á fótinn en ekki ofviða neinum. Þegar í Rauðsdalsskarð kemur upp af Bolla hinum megin skarðsins tökum við stefnuna fram fjallið og erum fljótlega á brúnum Arnórsstaðahyrnunnar (458 m) náð. Fremst á brúninni, svo framarlega að maður hættir sér helst ekki þangað, er lítil en stöndug varða hlaðin úr steinflögum, þétt og hnellin – útvörður fjallsins sem sést af Grafarhlíð utan við Reiðskörð ef vel er gáð. Litlu ofar, á hæsta punkti og fjær brún, er önnur varða, gisnari og hlaðin úr stærra grjóti. Héðan er útsýni um allan Breiðafjörðinn, yfir megineldstöðina, Flateyjareldstöðina, sem hér er undir sjónum og í eyjunum framundan allt að Flatey, og hefur hlaðið það land sem við nú stöndum á. Einnig út Barðaströndina allt að Siglunesi og Snæfellsnesið hinum megin og Skarðströndin til norðausturs.

Það er gaman að ganga inn brúnina og skyggnast niður og sjá Arnórsstaði tæpum 500 m neðar umkringda gjöfulum túnum. Halda svo á inn Skriðubrúnir eftir gömlum kindagötum. Hér er mikið um fugl.Við náum Moshlíðarbrúnum innan skamms og veljum okkur leið niður Moshlíðardalinn, göngum eilítið inn hann (norður) og svo niður á brún hans sunnan misgengis í fjallinu sem Moshlíðará rennur eftir. Þaðan er leiðin greið niður á tún og síðan veg. Moshlíðardalurinn er allbrattur en þaðan er gott útsýni yfir undirlendiðk, e.t.v. sjáum við móta fyrir Þrælatröðinni rétt innan girðingar og við rafmagnsstaur á Holtunum. Frekar er hægt að fræðast um hann og sporöskjulagaða steinhleðslu skammt frá í leiðarlýsingu um Forna hring.