Project Description

Surtarbrandsgil

Surtabrandsgil

Börn Hringleið Jarðfræði

Erfiðleikastig1
Tími göngu 2 klst.
Lengd göngu 6 km
Hækkun 160 m

Létt og leikandi gönguleið að náttúruvætti sem á engan sinn líka. Hér getur fólk barið augum steingervinga sem sýna okkur gróðurleifar frá þeim tíma er mun hlýrra var á þessu svæði. Steingervingarnir eru frá tertíertímabilinu og um tólf milljón ára gamlir. Meðal algengra trjátegunda sem þar hafa fundist eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Surtarbrandsgil er náttúruvætti og friðað og leyfi þarf til að ganga þangað. Skipulagðar ferðir eru yfir sumartímann í umsjón landsvarðar.

Merkt gönguleið er upp í Surtarbrandsgil á milli bæjanna og bryggjunnar. Innan við klukkustundargangur er að gilinu eftir vel genginni götu og hækkun er óveruleg, um 160 m. Í fyrstu göngum við eftir vegslóða í gegnum tún og fylgjum síðan merktri leið upp með ánni, aðeins á fótinn upp á Efri-Síðuna. Einungis er leyfilegt að fara í Surtarbrandsgil undir leiðsögn landvarðar.

Surtarbrandsgilið sjálft er myndarlegt gil, um 60 m hátt, allbratt og -djúpt og smálækkar inn til fjallanna þaðan sem áin kemur niður í fallegum fossi. Auðvelt er að komast inn í gilið þaðan sem við sækjum að en erfiðara eða ókleift annars staðar frá. Efst í Surtarbrandsgili til suðurs er fallegt stuðlabergslag og svo eru berglögin áberandi eitt af öðru í allnokkru stáli niður að steingervingalaginu sem gilið er frægt fyrir og er það nokkuð uppi í hlíðinni og skriða niður úr því. Steingervingalagið er áberandi ljósgrátt.

Steingervingalagið í Surtarbrandsgili varð til fyrir um 12 milljónum ára, á tertíertímabilinu er loftslag og umhverfi landsins var annað. Plöntuleifar, laufblöð, fræ, aldin, trjágreinar og -bolir hafa varðveist í setlögum vegna ákjósanlegra aðstæðna þar sem leifarnar hafa fallið í botnset í kísilþörungaríku vatni og varðveist þar undir fargi hraunlaga sem hlóðust ofan á þau. Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonar segja frá því í grein í Skógræktarritinu [1] að í Surtarbrandsgili hafa fundist flestar tegundir plöntusteingervinga á Íslandi, 36 talsins. Meðal þeirra eru fornelrisblöð, íslandsbirki, íslandshlynur, magnólía, fornanganviður, forntúlípanatré, agnbeyki, valhnotutré, selvíðir, álmur, vænghlynur, reyrblöð, fornjapansrauðviður, greni og barðþinur. [2] Flestar þessara tegunda eru útdauðar nú en skyldar, núlifandi tegundir er að finna sunnar í heiminum í tempruðum og heittempruðum lauf- og barrskógum og segir það okkur nokkuð um hitastigið hér um slóðir á þessum tíma þar sem ársmeðalhitinn var allt að 15°C og úrkoma töluverð allt árið um kring. Finna má skyldleika á milli plöntuleifanna í Surtarbrandsgili og plöntutegunda er lifa í skógum í Norður-Ameríku, Grænlandi, Norður-Evrópu og Asíu. Steingervingarnir sem finnast í Surtarbrandsgili bera þess merki að hafa verið á lágorkusvæði, í dalverpi við stöðuvatn og því er flóran svo fjölskrúðug og leifar hennar hafa varðveist vel.

[1] Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonarson. (2008). Íslands fornu skógar. Skógræktarritið, 68–85.

[2] Einnig: surtarelrir, toppur, hesli, laufblöð af lárviðarætt, klifurþyrnir, fornsætblaðka og rósarætt. Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonarson. (2009: bls. 68-85).