Project Description

Þingmannaheiði

Elva

Gömul alfaraleið Fornminjar

Erfiðleikastig2
Tími göngu 6 klst.
Lengd göngu 24 km
Hækkun 500 m
Skoða á korti Þingmannaheiði

Ganga um forna alfaraleið á gömlum akvegi sem lagður var um miðja síðustu öld. Létt en löng ganga sem færir gangandi alveg nýjan skilning á tengslum lands og umferðar um alfaraleiðir áður fyrr. Á háheiðinni er að finna stein sem torkennilegt tákn er klappað í. Sumar heimildir segja að það sé fangamark Grettis Ásmundssonar, aðrar að þetta sé búmark og ekki eldra en frá miðri 17. öld. Ganga um Þingmannaheiði hefst við annan hvorn enda hennar upp úr Vatnsfirði um Smiðjukleifar, einnig nefndar Þingmannarjóður, eða frá Eiði við Skálmarnes upp úr Kerlingafirði. 

Ganga yfir Þingmannaheiði hefst við annan hvorn enda hennar upp úr Vatnsfirði um upp Þingmannadal eða upp frá eyði við Skálmanes á milli Vattarfjarðar og Kerlingafjarðar, þ.e. ef bílvegurinn sem tekin var í notkun árið 1951 er genginn, annars liggur leiðin upp bratta sneiðinga Þingmannakleifarinnar upp úr Vattarfirði. Þessi lýsing lýsir leiðinni frá Eiði við Skálmanes og gamli bílvegurinn er genginn og rötun því auðveld. Gangan er nokkuð tíðindalaus upp Krossabrekkur að Austurá. Árnar á leiðinni hafa oft verið nokkur farartálmi í gegnum tíðina en voru brúaðar árið 1960. Engar brýr eru þó lengur á Þingmannaheiði, þær voru teknar þegar heiðin lagðist af sem alfaraleið um áratug eftir að þær voru smíðaðar.

Grettistak er að finna austur af Mjóafjarðarlindum u.þ.b. á háheiðinni. Steinn þessi var eitt sinn stórt grettistak og tolldi ofan á minni steinum en hefur fyrir all nokkru hrunið niður af þeim og klofnað í þrennt. Á einu brotinu er að finna rúnarristu, í fyrstu að sjá eins og HF en þegar betur er að gáð eru þetta torkennilegar rúnir sem ekki er vitað hvað þýða. Heimildir um rúnarstein austarlega eða á háheiðinni er að finna í Örnefnaskrá þar sem rúnin er sögð fangamark Grettis Ásmundsonar[1], í Sóknarlýsingum Vestfjarða[2], en þar er rúnin rissuð upp og líkist í raun ekki rúninni sem er á steininum. Þriðja heimildin um rúnina er að finna í  Frásögnum um fornaldaleifar og líkist rissan af henni þar heldur rúninni sem klöppuð er í steininn.[3] Steinninn er rétt við veginn og um að gera að staldra við og líta rúnirnar.

Gaman er að ganga niður hjallana upp af Kjálkafirði, vegurinn hlykkjast niður með fallegum klettum og hér er varðaða leiðin nokkuð utan vegarins sem ég fylgi. Gangan heldur áfram niður sneiðinga að Kjálkafjarðarám eystri og vestari og sameinast vörðuðu gönguleiðinni. Kjálkafjarðarárnar eru allmiklar og ekki sjálfsagt að geta stiklað þær, heldur þarf oft að vaða þær. Vegurinn leiðir okkur áfram upp úr Kjálkafirðinum og upp á hálendið norðan Auðnaaxlar (571 m) sem gnæfir hér há og fögur við himinn. Áfram höldum við niður af hálendinu um sneiðingana niður í Brunadali fremri og heimari, og þaðan yfir Þingmannaá á vaði og niður Þingmannadal. Vegurinn í Þingmannadal er oft niðurgrafinn og meðfram vörðunum sem varða leiðina alla leið niður í Mörkina. Vegurinn liggur hér rétt utan fornrar varðaðrar gönguleiðar sem liggur nær ánni og er vel þess virði að ganga út á klettana ofan árinnar og berja fagra fossa augum.

Að baki er 24 km tiltölulega létt ganga sem sýnir nýtt sjónarhorn á landslag og leiðir okkur um fornar slóðir þeirra sem  hér voru á undan okkur. Herleg ganga í góðum félagsskap hvort heldur þú ert ein með vindinum eða í fylgd með fullorðnum.

[1] Örnefnaskrá, Auðnar og Auðshaugur.

[2] Ólafur Sívertsen. (1952). Lýsingar Flateyjarprestakalls. Í Samband vestfirskra átthagafélaga, Sóknarlýsingar Vestfjarða, I Barðastrandasýsla. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi. bls. 110.

[3]  Sveinbjörn Rafnsson. (1983). Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Stofnun Árna Magnússonar: Reykjavík.