Project Description

Fossárháls

Fossárháls

Börn Gömul alfaraleið

Erfiðleikastig2
Tími göngu 2 klst.
Lengd göngu 8 km
Hækkun 220 m

Gamall alfaravegur yfir á Hjarðarnes. Aflagður 1974/5 þegar nýr vegur kom fyrir Hörgsnes. Ferðalangar hafa val um hvoru megin þeir kjósa að ganga á hálsinn, þ.e. upp úr Mörk í Vatnsfirði eða upp frá Fossá. Gömlum bílvegi er fylgt hvor upphafsstaðurinn sem valinn er en gæta verður þess að rata á Fossárhálsinn ef farið er upp frá Mörkinni því að sama vegi er fylgt við upphaf leiðar og farinn er um Þingmannaheiði, en beygt af leið yfir Þingmannaá nokkuð ofarlega í Þingmannadal, vaða þarf ána sem yfirleitt er greiðfær.

Stysta leiðin frá Hjarðarnesi og vestur á bóginn landleiðina liggur um Fossárháls eða Hálsveg á Fossárhálsi eins og hann hefur einnig verið kallaður. Lengra var að fara fyrir Hörgsnesið. Hér hefur alfaraleið legið um lengi og vegagerðarskjöl og -skýrslur sýna að vegurinn um Fossárháls hafi verið ruddur 1864 og að unnið hafi verið í honum markvisst með nokkurra ára millibili. Leiðin yfir á Þingmannaheiði af Hjarðarnesi lá einnig um Fossárháls því að það var töluvert styttra að fara en firðina austur á bóginn. Árið 1952 var ruddur vegur yfir Fossárháls svo að hann varð bílfær og aðeins meira lagt í hann en Þingmannaheiðina árið áður og vegurinn uppbyggður að hluta. Fossárháls þjónaði íbúum svæðisins vel og lengur en Þingmannaheiðin þar sem vegur fyrir firðina leysti hana af hólmi árið 1969. Við það jókst umferð um Fossárháls og var hann þjóðleið vestur allt fram á ofanverðan áttunda áratug síðustu aldar þegar vegur kom fyrir Hörgsnes.

Ganga um Fossárháls er tiltölulega létt og auðrötuð ganga um gamla alfaraleið. Efst á Fossárhálsi, upp af Öskjudal, eru mörg smávötn er nefnast Pollar og Öskjudalsá rennur úr til sjávar vestan til við Fossána. Héðan er Fossárfjall hæst til vesturs og Uppsaladalur til norðurs. Útsýnið yfir Fossárfjall, Grendal, Öskjudal, Vatnsfjörð og Breiðafjörð er fallegt. Skemmtilegt er að æja við Tjarnirnar, falleg vötn á miðri leið, en þar lónar lómapar í kyrrðinni.

Nauðsynlegt að hafa bíl á þeim stað sem komið er niður, því verulegur spotti er frá upphafi að end a ferðar. Á myndinni sér af Hellufjalli yfir á Fossárháls (ofarlegt tv.) og -fjall. Einnig syðri enda Vatnsdalsvatns, Mörkina, Smiðjukleifar og innsta hluta Vatnsfjarðar.