Project Description

Fossvík á Siguluneshlíðum

Hringleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 6-8 klst.
Lengd göngu 16-17 km
Hækkun 30 m

Ganga um Sigluneshlíðar er nokkuð erfið og nokkuð löng. Hún býður aftur á móti upp á Hornstrandaupplifun við Breiðafjörðinn og það með fyrirheiti um uppbúið rúm og heimaeldaða máltíð að göngu lokinni ólíkt Hornstrandagöngunum. Ganga um Sigluneshlíðar hefst á Siglunesi.

Lagt er upp frá Siglunesi og fjörukamburinn genginn út að Ytranesi og Hellisvík. Utan Hellisvíkur eru sjávarklettar sem heita Mígandi sökum þess að þar drýpur vatn niður hvernig sem viðrar. Við getum nú valið um þrjár leiðir út Sigluneshlíðar, í fjörunni ef ekki er of hásjóað, eftir kindagötu í hlíðinni sem nefnist Bakkagata og liggur á milli Hellisvíkur og Krossness við Fossvíkina, eða uppi á Hólunum, en það heita skriðurnar og er það líklega besta leiðin lengst af þar sem Bakkagata er oft tæp og þurr enda í snarbröttum bökkunum framan í Hólunum, og fjörugrjótið þreytandi í stórhnullungafjöru ef fjaran verður fyrir valinu. Hólarnir eru nokkuð seinlegir yfirferðar sama hvar farið er, holt og lautir, en fallegir. Þegar þeim sleppir göngum við um Merargjótu, djúpa skriðu í hlíðinni sem nær alveg upp í kletta hátt uppi yfir í Mávaskor, og þar vestan við er Bristi, voldugur skriðuhryggur í hlíðinni sem byrgir útsýni í þá áttina sem komið er úr en opnar nýja sýn.

Framundan eru Björgin, háir sjávarhamrar, grónir uppi og með hnullungafjöru undir. Eldra fólk trúði því að huldufólk byggi í Björgunum og var bannað að slá grasið sem þar óx. Gróðursælt er uppi á Björgunum, e.t.v. ekki síst vegna silfurtærs Bjarglækjarins sem sprettur út úr hlíðinni rétt fyrir ofan götuna og steypist fram af brúninni. Vatn úr læknum þótti afar heilnæmt og jafnvel búa yfir lækningarmætti og létu menn ekki undir höfuð leggjast að bergja af honum þegar þeir áttu leið um. Í framhaldi af Björgunum eru Háuskriður, tæp gata á hengiflugi og ráðlegg ég fólki að fara frekar undir Björgin og ganga hnullungafjöruna þar undir en að feta sig eftir götunni. Ágæt leið finnst niður einhverja brekkuna innan Bjarganna og hnullungafjaran leiðir okkur að Krossnesi og þá erum við í Fossvík.

Nokkuð erfitt er að komast niður í hömrumgirta Fossvíkina og betra að hafa með sér vað ef sú er ætlunin. Annars er gott að ganga Fosshjallann ofan hennar og þvera ána þar sé ekki of mikið í henni. Þaðan er hægt að fara eftir Stígskor út á Hústún. Heimildum ber ekki saman um hvort búið hafi verið á Hústúni en þar eru allnokkrar tóftir. Leiðin til baka er sú sama.