Project Description

Hagatafla um Miðhlíðardal

Hringleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 3-4 klst.
Lengd göngu 12 km
Hækkun 603 m
Skoða á korti Hagatafla um Miðhlíðardal

Óvenjuleg leið á Hagatöflu og fær hestum. Hefðbundin gönguleið á Hagatöflu er upp úr Heimribollanum  í Múlahyrnunni upp af Haga og Breiðalæk. Þar er gengið upp með nyrðra gilinu og svo áfram fram með töflunni að gilskorningnum u.þ.b. um töfluna miðja og norðan megin í henni. Farin er sama leið til baka. Hér veljum við aftur á móti að fara á Hagatöflu um Miðhlíðardal. 

Gangan hefst við Hrísnes og gengið er einn Miðhlíðardal svo að segja með ánni og stefnt í suðvestur upp á brún dalsins. Þegar brún er náð taka við Kjölbrekkur inn af dalnum og er stefnan er tekin til austurs að Kili þar sem fjallið er hæst einir 419 m. Bráðlega kemur Hagataflan í ljós, rís upp líkt og hóll í annars nokkuð sléttu umhverfi svo ofarlega. Undirlagið er að mestu þægilegt, sums staðar eins og hellulagt og miðar göngufólki vel áfram.

Gaman er að ganga á Hagatöflu að vestanverðu – auðveld ganga og hvert spor færir göngufólki betra útsýni yfir hálendi Barðastrandar og Breiðafjörðinn og fyrr en varir eru menn á toppnum. Gangan fram Hagatöfluna er nokkuð stórgrýtt en fallegir eru steinarnir skófum skreyttir. Nokkuð framalega á Hagatöflu er allmyndarleg varða sem gott er að tylla sér niður við og borða nesti og njóta útsýnisins. Litlu lengra er hægt að feta sig til austurs á Hagatöflu en gisin er hún fremst og ekki þorandi að fara alla leið en auðveldlega má komast nokkuð fram fyrir vörðu.

Ef ekki er farin sama leið til baka er hægt að fara inn á hefðbundnu leiðina og nýta sér gilskorninginn að norðanverðu fyrir miðju fjallinu. Það er allbratt og við tekur svo ganga í stórgrýti undir töflunni sjálfri og fram undir/á Múlahyrnu. Fólk getur slegið hér tvær flugur í einu höggi og gengið fram á Múlahyrnu í leiðinni. Þar er hengiflug fram af fjallinu og fuglinn unir sér vel í uppsteyminu. Litlahlíð, Skjaldvararfoss og Múlar kúra undir og lengra til vesturs gefur að líta Miðhlíðar og Hrísnes – þaðan sem lagt var upp. Best er síðan að halda sem leið liggur niður Heimribolla, lítið eitt niður með gili innar í bollanum ef fólk sleppir Múlahyrnunni og halda sig síðan utan til við gilið í botni bollans og fara niður með því og niður á veg á milli Breiðalækjar og Innri-Múla.