Project Description

Helluvatn

Helluvatn

Börn Hringleið

Erfiðleikastig2
Tími göngu 2-3 klst.
Lengd göngu 8-9 km
Hækkun 300 m 
Skoða á korti Helluvatn (hringur)

Einstaklega skemmtileg og létt ganga, hækkun tekin að mestu út fyrst. Hægt að renna fyrir loðsilungi ef himbriminn lætur ekki sjá sig. Fallegt sjónarhorn á Lónfell og möguleiki á að lengja göngu upp á Hellufjall og fá nýtt sjónarhorn á Vatnsfjörðinn og Vatnsdalsvatnið, nú eða ganga í kringum vatnið. Heillandi ganga og öllum viðráðanleg.

Helluvatn er á Hellufjalli upp af Hótel Flókalundi þar sem eyðibýlið Hella var forðum. Ganga að Helluvatni hefst við Flókalund eða á Kýrholti þar sem tjaldstæði Flókalundar er. Þetta er merkt leið. Í fyrstu er gengið upp Kýrlág sem er misgengi í fjallinu, brött og gróin. Stikuðu leiðini er fylgt inn á fjallið og er gangan að mestu aflíðandi eftir að þangað kemur og að Helluvatni.

Helluvatn er allstórt vatn og úr því rennur Eiðisá sem kemur niður í Vatnsfjörðinn rétt utan Vatnsdalsins. Falleg sýn er á Lónfell frá Helluvatni, alveg nýtt sjónarhorn, og Hornatærnar kíkja upp úr umhverfi sínu ein af annarri. Það er skemmtilegt að gefa sér tíma við Helluvatn. Þar sem við komum að vatninu er það að nokkru hömrum girt en innar eru grónir bakkar að því og gaman að ganga umhverfis það.