Project Description

Lækjarheiði

Pyttaskarðshyrna, Kikafell, Þverfell og Búrfell

Hringleið

Erfiðleikastig 3
Tími göngu 6 klst.
Lengd göngu 16-17 km
Hækkun þrjár hækkanir, 610 m, 80 m og 120 m
Skoða á korti Innstrandarhálendi

 

Hringferð um hyrnu og fell umhverfis Vaðalsdal. Undirlag misjafnt en að mestu ágætt – hér kynnist fólk „trampólingi“ af eigin raun. Þetta er einstök hringferð sem gefur möguleika á að heimsækja skaflinn á Fjósadalnum sem hverfur helst aldrei, ef hann gerir það boðar það harðan vetur. Einnig getum við gengið eilítinn útúrdúr og gengið fram á Rauðsdalsfjallið og kíkt niður Hrafnagjána inn af Hrafnanesi. Frábært útsýni þaðan yfir Breiðafjörðinn. 

Lagt er upp við mynni Vaðalsdalsins og gengið svo sem leið liggur fyrir hornið á Hamarshyrnunni, inn dalinn og skáa sig smám saman upp á Hagana og upp á sjálfa Hamarshyrnuna sem er lægst 193 metrar beint upp af Hamri. Fylgja þar næst brún þar til hæsta hjalla er náð, 511 m. Nokkuð bratt er upp Kerlingarnar sem eru norðan megin í Hamarshyrnunni,  en vel gengt. Stórkostlegt útsýni er á þessari leið og alveg nýtt sjónarhorn á Hagavaðalinn og útströnd. Uppi á Kerlingunum er útsýni yfir Fjósadalinn sem er beint upp af Hvammi, næsta bæ innan við Hamar. Gengið er áfram í austurátt og hækkað lítillega yfir Pyttaskarðshyrnu (563 m) og lækkað aftur niður í Pyttaskarð og upp á við á ný upp á Kikafell að sunnanverðu. Kikafell er 610 metra hátt og hæst fjalla á Barðaströnd ef við teljum ekki Vatnsfjarðarfjöllin með. Hér er útsýnið jafnvel enn meira en af Hamarshyrnu, við blasir Vatnsfjörðurinn og Hjarðarnesið í öllu sínu veldi. Við sjáum líka vel yfir alla dagleiðina umhverfis Vaðalsdalinn – Pyttaskarðshyrna næst í suður og þá Hamarshyrna, Kerlingar og Hagar, í norðurátt blasa Þverfellið og Búrfellið við göngufólki og Vaðalsfjallið og -dalurinn breiða úr sér við fætur okkar.

Leiðin niður af Kikafelli liggur um Lækjarskarð á Þverfell. Gott er að komast niður af Kikafellinu að norðanverðu þó að nokkur stórgrýtisurð sé á leiðinni, en hún er ekki til mikilla trafala. Göngufólk þverar Lækjarskarð og finnur sér góða leið upp á Þverfellið og gengur það endilangt í átt að Búrfellinu, í norður. Þverfellið er um kílómeter að lengd, 453 metrar þar sem það er hæst og hæðótt. Leiðin liggur áfram niður af Þverfellinu u.þ.b. nyrst og inn á Lækjarheiðina gömlu milli Trostansfjarðar og Brjánslækjar í átt að Búrfellinu. Þar eru enn vörður og vörðubrot og víða má sjá gömlu götuna þar sem ekki hefur vaxið upp af grasi og mosa.

Búrfellið er 514 m formfagurt fjall sem er áberandi af Hjarðarnesi og bæjunum við Hagavaðal og jafnvel af Skarðsströnd, en lítt sjáanlegt úr Vatnsfirðinum norðanverðum.  Á Búrfellið er gegnt að austan- og norðanverðu en klettótt og snarbratt að sunnan- og vestanverðu. Af Búrfelli er mikið útsýni og fallegir klettar. Pyttaskarðið, 550 m, blasir við göngufólki varðað inn af Kikafelli og Pyttaskarðshyrnu sem eru einstaklega falleg héðan að sjá. Gaman er að ganga brúnina norður Búrfellið og horfa niður yfir grasi grónar lautir í Fremstakrika, yfir Vaðalsfjallið og Þverána þar sem hún rennur niður Þverárdalinn niður í Mórudal í vestri. Lautirnar undir Búrfellinu inni í Fremstakika eru tilvalinn áningarstaður áður en heimleiðin hefst fyrir alvöru, gangan frá Búrfelli að bíl um Vaðalsfjall og –dal eða Vaðaldsal og Krossfjall allt eftir því hvað fólk velur. Þetta er þægileg ganga um lyngmóa og holt að mestu niður í móti.