Project Description

Pyttaskarð

Pyttaskarð

Söguganga Gömul alfaraleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 4-5 klst.
Lengd göngu 10-11 km
Hækkun 550 m
Skoða á korti

Prjónagönguleið. Skemmtileg gönguleið á milli Vaðals og Moshlíðar á Barðaströnd. Þessa leið fór Elín á Vaðli oft til að heimsækja Valdísi dóttur sína sem bjó í Moshlíð. Elín eða Ella eins og hún var alltaf kölluð, gekk þessa leið léttstíg og prjónandi. Ekki erfið og mátulega löng fyrir dagsgöngu. Hækkun þó töluverð en undirlag gott víðast hvar.

Uppi á hálendinu milli Brjánslækjar og Vaðals liggja tvö skörð sem farið var um hér áður fyrr, Lækjarskarð norðan Hestmúla milli Kikafells og Þverfells og Pyttaskarð, nokkru sunnar milli Kikafells og Pyttaskarðshyrnu. Þessa leið fór Elín Kristín Einarsdóttir (1883─1979) á Vaðli gjarnan til að heimsækja dóttur sína, Valdísi Elíasdóttur, sem bjó í Moshlíð á árunum 1938─1946. Elín lagði af stað snemma á morgnana og ferðin tók hana ekki langan tíma. Ekki var hún aðgerðarlaus á göngunni heldur stakk hún bandhnykli í vasann og prjónaði alla leiðina líkt og tíðkaðist hjá konum í þá daga. Krakkarnir í Moshlíð voru alltaf glaðir að sjá ömmu sína koma niður Moshlíðardalinn og hún færði þeim það sem hún hafði haft á prjónunum á leiðinni, sokka eða vettlinga.

Ganga hefst við mynni Vaðalsdals og göngufólk finnur sér góða kindagötu inn dalinn og hækkar sig jafnt og þétt upp undir Pyttskarðið sem er á milli Pyttaskarðshyrnu og Kikafells. Ágæt leið er upp í skarðið en ekki gata. Leiðin niður að Moshlíð er síðan eftir Bekkjum og niður Bollabungu og Lækjarbungu og niður Moshlíðardalinn. Setjum okkur um stund niður á bæjarhólnum í Moshlíð. Þar er ekkert sem vitnar lengur um búsetu þar nema gróið tún en hóllinn er áberandi og gott útsýni af honum yfir Vatnsfjöðinn og Vestureyjar á Breiðafirði.