Project Description

Lækjarheiði

Gömul alfaraleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 7 klst.
Lengd göngu 18 km
Hækkun 550 m
Skoða á korti Lækjarheiði

Lækjarheiði er ein af mörgum gömlum alfaraleiðum til Barðastrandar. Fjölfarin leið áður fyrr til Arnarfjarðar. Ágætlega vörðuð á köflum og gata greinileg en rennur út í sandinn á holtum og grær upp úr í kjarri. Gönguleið á bak við allt sem tengir a.m.k. þrjú svæði á Barðaströnd. Fullvaxin ganga en ekki erfið.

Upphaf göngu í Trostansfirði er við brú á Sunndalsá og gengið er upp með ánni og um Lækjarskarð sem er vestan megin við Hádegishnjúk. Falleg varða vísar leiðina á skarðið þegar komið er töluvert í hæð. Þangað til er gott að fylgja ánni og svo að stefna á skarðið. Falleg gata er í Lækjarskarði og þegar hæð er náð í 550 m er stefnan beint eftir misgengi á fjallinu sem vísar í suðaustur. Ferðafólk ber að Krókavötnum og vert er að staldra þar við og skoða. Skammt frá Krókavötnum er heljarmikið bjarg, tvær mannhæðir, sem allt er sundursprungið en helst þó saman.

Áfram er haldið upp úr misgenginu og brátt er komið að Búrfelli, fallegu felli sem er eins og lítið bæjarfjall uppi á hálendinu og er kennileiti af sjó þó svo að ekki megi nefna það sem slíkt vegna hættu á að ,,nafni“ þess í hafdjúpunum heilsi upp á sjófarendur, heldur hefur það nafnið Matarfell. Gatan er vel sýnileg og góð af og til en rennur út í sandinn á holtum og melum. Vel vörðuð einnig hér og hvar en e.t.v. ekki þar sem mest á ríður. Áfram er haldið með Hestmúlanum austanverðum, ofan Oddleifsmýri, niður Neðstu-Síðu og heim að Brjánslæk.

Guðlaug Guðmundsdóttir föðursystir mín sem búsett var á Brjánslæk ásamt fjölskyldu sinni sem barn, segist muna eftir ferðalöngum er komu niður Neðri-Síðu og voru að fara á áætlanabátinn. Faðir með dætur sem síðar urðu fínar frúr í Reykjavík, agalega lekkerar og flottar sem lítil stúlka leit upp til og gekk sæl úr rúmi fyrir. Mikill gestagangur var á Brjánslæk vegna komu áætlanabátsins þangað og vanalegt að ganga úr rúmi fyrir gesti.

Ganga um Lækjarheiði er drjúg ganga en þægileg og skemmtileg og færi gefst á að tengja göngusvæði og átta sig betur á landslaginu –  hvernig það liggur. Það er einmitt það sem göngur gera – þær tengja saman landsvæði.

Á myndinni er Rögnuborg sunnantil á Lækjarheiði.