Project Description

Lækjarskarð

Börn Gömul alfaraleið

Erfiðleikastig2
Tími göngu 4-5 klst.
Lengd göngu 12 km
Hækkun 400 m

Gömul þjóðleið á milli Brjánslækjar og Vaðals. Skemmtileg leið sem býður upp á ævintýri! Undirlag er mjög gott, melar, gras og gamlir stígar.

Gömul alfaraleið liggur upp frá Vaðli yfir að Brjánslæk og styttir vegalengdina um þriðjung. Bratt er upp úr Vaðalsdal í Lækjarskarð og einnig fremst í hlíðum Hestmúlans. Páll Jakobsson á Hamri segir því hafa verið betra að fara þessa leið fótgangandi en hún var engu að síður einnig farin á hestum. Algengara var þó að fara troðning fram fyrir Þverfellsenda, Fellsenda, og inn á Lækjarheiðarveg væru menn ríðandi.

Lagt er upp frá Vaðli eða Hamri og stefnan tekin inn Vaðalsdalinn. Hægt er að ganga fram dalinn hvar sem er og getur göngufólk valið hvort það hækkar sig strax upp á Hagana og gengur sem næst á jafnsléttu inn dalinn eða gengur upp með ánni. Leiðin liggur fram dalinn og hann hækkar jafnt og þétt í kringum okkur, fjöllin rísa. Við erum komin inn fyrir miðjan dal og nálgumst botn hans. Pyttaskarðshyrna (563 m) og Kikafell (610 m) rísa til suðausturs og Pyttaskarðið á milli þeirra um 560 m hátt. Um það bil beint niður af Pyttaskarðinu og undan Kikafellinu rennur Seljáin í gegnum hraunlög og klettahjalla.

Við erum brátt komin að upptökum Vaðalsár við Katlagil og Draugagil. Við tekur töluverð hækkun upp í Lækjarskarðið, í fyrstu upp grasi og lyngi vaxnar brekkur en síðar upp malarbrekku upp í skarðið. Úr skarðinu gnæfir Kikafellið yfir til suðurs en Þverfellið (453 m) heilsar kumpánlega í norðri um leið og göngufólk gengur framhjá því á leið niður úr formfögru og sléttu skarðinu. Úr Lækjarskarði sést alla leið út á Siglunes í vestri og Vatnsfjörðurinn og Breiðafjörðurinn breiða úr sér að fótum göngufólks til austurs og suðurs, og hálendi þess er í forgrunni í norðurátt, Hornatær og Lónfell. Búrfellið (514 m) fer nú óðum að hverfa, en það hefur orðið meira áberandi og fallegra með hverju sporinu frá því yst í Vaðalsdal. Leiðin niður úr Lækjarskarðinu liggur með suðurhlíðum Hestmúlans og svo fetum við okkur niður um götur upp af Surtarbrandsgili og síðar niður Efri-Síðu og niður á þá Neðri. Þetta er líka skemmtilegt sjónarhorn á Surtarbrandsgilið. Síðasti spölurinn ofan holtin er á vegslóða sem ruddur hefur verið á síðari tímum og er góður til að ganga sig niður og njóta útsýnis yfir Vatnsfjörð.

Á myndinni sér út Vaðalsdal af Þverfelli.