Project Description

Miðvörðuheiði

Gömul alfaraleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 8-10 klst.
Lengd göngu 25 km
Hækkun 540 m
Skoða á korti Miðvörðuheiði (með Botnaheiði)

Gömul alfaraleið á milli Tálknafjarðar og Barðastrandar. Hér er hálendi Útstrandar allt undir og algjörlega nýtt sjónarhorn á Barðaströndina. Það er á einhvern hátt sérstakt að tengja leiðir á þennan hátt, gangandi, allt önnur rýmisskynjun. Falleg og sérkennileg veðrun er í bergi í yfir 400 m hæð á þessum slóðum. Vörðurnar taka á sig kynjamyndir og líkjast jafnvel Venus frá Willendorf í Austurríki eða Maríu guðsmóður. Eða er það sem hugurinn sem hefst upp í annað veldi og býr til þessar helgi- og kynjamyndir? Hverju sem því líður er ganga um Miðvörðuheiði einstaklega skemmtileg og betra að hugsa sér allan daginn í hana og velja til hennar sólríkan sumardag. Gönguleiðin hefst við rafstöð í Tálknafirði á þjóðvegi 63 eða við Haga á Barðaströnd.

Um uppgöngu á Miðvörðuheiði úr Tálknafirði er fólk ekki á eitt sátt. Sumir segja hana hefjast við Hjallatún, fyrsta bæ norðan fjarðar, þar upp brattann og inn brúnina. Þetta styðja gömul og ný kort. Aðrir segja hana liggja upp með giljum innst í Botnsdal í Tálknafirði. Öllum ber þó saman um að stefna skuli á Sjónarhól inn af Botnsdal, í suðaustur þegar upp í hæð er komið. Við veljum að nýta okkur línuveg upp í hálendið því að aðrar leiðir eru óljósar, byrjum við rafstöðina innarlega í Tálknafirði á vegamótum á þjóðvegi 63, rétt utan Hjallatúns, nýtum okkur línuveginn upp hlíðina og inn fyrir hömrum girt gilin og freistum þess að sleppa við að lækka okkur ofan í þau. Tökum stefnuna á Sjónarhól og fylgjum línuveginum töluvert inn með botni Tálknafjarðar, samsíða gömlu alfaraleiðinni þangað til stefnan á Sjónarhól býður okkur annað. Hér heita Reykjagil, Torfadalur og Þverár innst og næst Sjónarhóli. Þar þurfum við að gæta okkar að fara yfir þær báðar og taka við það nokkurn krók því að hamrastál er hér niður. Við höldum áfram upp á Sjónarhól sem er í 377 m hæð og tökum stefnuna til austurs upp úr brekkunum inn af Sjónarhóli, upp hamrabeltið og þaðan í skarðið, um 170 m hækkun. Ágætar vörður eru á leiðinni, þéttar á köflum en fátíðari er nær dregur Barðaströndinni.

Brátt erum við á vatnaskilum í 542 m hæð. Þar standa einar sex misstórar og stöndugar vörður og eins og marka „hlið“ á heiðinni. Heitir þar Miðvarða eða Þrívörður, því að eitt sinn voru þær þrjár, vörðurnar. Ein er þeirra stöndugust og freistast ég til þess að nefna hana Miðvörðu. Sagt er að Þrívörður hafi verið á hreppamótum og finnast þær einnig við Vegamót á Fossheiði. Það er sérstakt að standa í „hliðinu“ og sjá alveg nýtt sjónarhorn opnast til suðausturs og kveðja vestrið að sinni. Úr skarðinu má finna greinilega götu í gegnum stórgrýtisurð áfram til Barðastrandar. Vörðurnar leiða okkur niður yfir Fjalldal og Vatnadali þrjá sem einu nafni nefnast Hagavatnadalir. Við göngum með Þórðarhyrnu og Folaldafæti. Grasivaxnar lautir og mýrarflóar Heimsta-Vatnadals taka við af berum steinklöppum Fjalldals og efri Vatnadala. Hér er sauðfé á beit og gatan er gróin niður í grassvörðinn, það er því orðið erfitt að fylgja henni – einungis varða og varða á stangli. Við förum niður Hraunin og vestan megin við Eitraðahnjúk, hæsta tind Hagamúlans, og finnum okkur leið niður í Hagadalinn niður með Golsuskarði og undir Skjólhömrum sem girða dalinn að austanverðu. Framhjá Hákonarstekk og niður á Eflisholt innan Hagaárinnar. Þetta er yndislegt landslag, kjarri vaxið og hér er nóg af berjum og blágresi. Að baki er dágóð ganga á milli byggðarlaga, bæði löng og erfið en erfiðisins virðis.

Á myndinni er ein af vörðum Miðvörðuheiðarinnar. Þessi er í Fjalldal – skemmtileg útlits.