Project Description

Auðnaöxl og Fossárvötn

Hringleið Jarðfræði

Erfiðleikastig3
Tími göngu 4 klst.
Lengd göngu 11 km
Hækkun 570 m
Skoða á korti Auðnaöxl og Fossárvötn

 

Ganga á Auðnaöxl er fullvaxin ganga á útsýnisfjall með viðkomu við Fossárvötn sem eru í um 300 m hæð og mikið líf í kringum. Héðan er útsýni yfir allan heiminn!

Gangan hefst við rætur Fossárháls við Fossána og er hringganga, þ.e. gengið er aftur að sama stað.

Auðnaöxl rís hátt upp af Þingmannadal, einir 571 m á hæð. Auðnaöxl er kennd við eyðbýlið Auðna sem er í Kjálkafirði og fór í eyði um þarsíðustu aldamót. Víða er hægt að ganga á Auðnaöxl en hér veljum við að fara af Fossárhálsi og hefjum göngu við upphaf hans austan megin, rétt norðan Fossárinnar. Við göngum upp gamla veginn yfir Fossárháls og beygjum af honum upp gildrag til austurs þegar við erum u.þ.b. komin upp brekkur hans. Við tökum stefnuna á Fossárvötn sem eru hér nokkru ofar í um 300 m hæð. Fossárvötnin eru mjög falleg, svipuð að stærð og allmikil með gróna bakka. Fuglalíf er nokkurt við vötnin, svanir á tjörn og lómar, einnig mávur og kría. Hér eru einnig sumarhagar sauðkindarinnar því að graslendi er nokkurt. Við vestra vatnið er stuðlabergsstapi og landfastur hólmi úti í því austara. Hér má dveljast löngum stundum og er léttur og góður göngutúr á nýjar slóðir langi okkur ekki lengra og dáumst að Auðnaöxlinni úr fjarlægð.

Ákveðum við að halda á, eins og menn gera hér um slóðir, göngum við upp hjallana og miðum við að koma upp rétt norðan Einarsaxlarinnar sem er upp úr miðjum Núpnum. Þaðan göngum fjallshrygginn að toppi Auðnaaxlar. Toppurinn er líkt og klettavirki fallegra veðursorfinna klettamyndana og klappa. Héðan er útsýni yfir allan heiminn! Til vesturs yfir Fossárfjall, Öskjudal og Grendal, til norðurs inn Þingmannadal, Brunadali, Glámuhálendi og Drangajökul, austur á Skálmarnes og Litlanes og allt að Vaðalfjöllum í Reykhólasveit og tveimur fjallatindum upp af Trékyllisvík á Ströndum. Auk alls hálendis Barðastrandar, Lónfells, Hornatáa, Búrfells, Kikafells og Blanks, aðeins vestar eru Múlahyrna, Hagatafla, Þórðarhyrna og Mávaskorarnúpur rétt vestan Sigluness. Snæfellsjökull og nesið allt heilsar sunnan megin Breiðafjarðar sem allur er undir. Það er því óhætt að mæla með útsýninu.

Við veljum okkur e.t.v. aðra leið niður, undir klettahjalla og svo sem leið liggur niður að vötnunum aftur. Gaman getur líka verið að fylgja Fossánni niður frá vötnunum um Húsdal og niður á Þjóðveg. Það er falleg ganga og skemmtileg í grónum dal með hraundröngum er neðar dregur. Á myndinni er Þuríður, yngsta dóttirin og góður göngufélagi, á Auðnaöxl með Vatnsfjörðinn og hálendið ofan Seftjarnar og Brjánslækjar í baksýn.