Project Description

Hagavaðall

Börn Söguganga Hringleið

Erfiðleikastig1
Tími göngu 2 klst.
Lengd göngu 6 km
Hækkun engin

Hagavaðalinn er hægt að ganga hvaðan sem er en auðvelt er að komast að honum fyrir botni hans þar sem hann liggur næst þjóðveginum, við sundlaugina í Laugarnesi eða við Arnarbýlu. Afar ánægjulegt er að ganga út í Hagaodda, það eru 3 km hvora leið og engum ofviða. Þrjú vöð eru á Hagavaðli. Ef ganga á um Hagavaðal er nauðsynlegt að huga vel að sjávarföllum því að vaðallinn er sem víðlent flatlendi á fjöru en barmafullur fjörður af sjó á flæði. 

Hagavaðallinn er um miðja Barðaströnd. Um Hagavaðal lá alfaraleið til allra átta og út í lönd því að fyrr á öldum var hér hafskipahöfn. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur segir að með djúpsigldari skipum hafi skipalægið færst út á Hagabótina hér úti fyrir. [1] Í Refshólma vestan megin í vaðlinum og við ósa Arnarbýlu segir að Króka-Refur systursonur Gests Oddleifssonar hafi smíðað hafskip og sér fyrir tóftum þar. Á Bótólfsnesi skammt utan Vaðalsár austan megin í vaðlinum var síðasta aftaka í Barðastrandarhreppi. Þar var Bótólfur Jörgenson hálshöggvinn árið 1740. Bótólfur hafði tveimur árum áður barið Jón Gottskálksson nokkurn til óbóta þannig að hann lést af sárum sínum skömmu síðar.

Við göngum úti í vaðlinum eða með voldugri Hagafitinni sem hefur skapað þær aðstæður sem hér ríkja, sandrif sem að mestu lokar vaðlinum. Uppi á bökkum hennar eru Dalmannsþúfur sunnan Hagaár og Bakkhús utar. Þetta eru gamlar eyðihjáleigur frá Haga og nokkrar tóftir að sjá. Leiðin liggur út í Hagaodda, vestari odda Hagavaðals. Þar er mikið af kúskeljum og gott að nesta sig í tanganum. Það er skemmtileg afstaða við Barðaströnd að vera stödd í Hagaodda, svo langt frá landi en þó í landi. Þetta er alveg nýtt sjónarhorn og hér sést líklega best til Kerlingardals bak Mórudals hvar Reykjafjarðarskarðið trónir yfir. Hamarshyrnan er líka einstök frá þessu sjónarhorni, voldug og drottningarleg eins og henni sæmir.

Þrjár ár falla í Hagavaðal, Vaðalsá, Móra og Arnarbýla. Þær koma úr samnefndum dölum sem ganga upp frá vaðlinum, Vaðalsdal, Mórudal og Arnarbýlisdal. Alfaraleiðir láu áður fyrr um þessa dali í Arnarfjörð og Vatnsfjörð. Í Hagavaðli voru áður þrjú vöð. Steinbogavað var fremst og markast af skerjum austan megin vaðals sem ganga þvert á vaðalinn. Á fjöru má fara hér um og var vaninn að fara hér ríðandi. Annað vaðið var um Brandshólma, stærsta hólmann í vaðlinum, út og upp af honum og upp á reiðgötu við Hagaá. Efsta vaðið var kallað ,,að fara Krosslæk.“ Þá var farið úr nesinu innan til við lækinn og meðfram Krossskerinu og í land í nesinu utan Arnarbýlu.

Sundlaug og heitur pottur er í Laugarnesi niður undan Krossholtum innst í Hagavaðli. Hér lærðum við krakkarnir að synda og nutum þess að fara í vaðalinn á milli sundsprettanna. Tilvalið er að skella sér í sund eða láta þreytuna líða úr sér í heitum potti í sjávarmálinu í Laugarnesi að göngu um Hagavaðal lokinni.

[1] Steinunn Kristjánsdóttir. (1999). Gellishóll – manngerður hóll í landi Breiðalækjar á Barðaströnd. Skýrslur Minjasafns Austurlands VI. Egilsstaðir: Minjasafn Austurlands.