Project Description

Reiðskörð og Ruddys

Börn Söguganga Hringleið Fornminjar

Erfiðleikastig1
Tími göngu 1 klst.
Lengd göngu 3 km
Hækkun 10 m

Afar þægileg en viðburðarík ganga að mögnuðum náttúruvættum sem alfaraleið lá um. Ævintýraleg fjöruferð og ganga um dimma sögu. Reiðskörð eru berggangur sem gengur í sjó fram nokkru vestan Rauðsdals. Nafn sitt bera þau af því að um þau lá alfaraleið, fólk reið um skörðin. Í heimildum eru þau stundum nefnd Rauðsdalsskörð eða Rauðsskörð en í daglegu tali er talað um Skörðin. Á fjöru var farið um Skörðin en fara þurfti uppi á Skörðunum á flæði og liggur vegslóði yfir þau. Alfaraleið liggur nú uppi á Skörðunum út Grafarhlíð.

Reiðskörð eru tilvalinn staður til að stoppa hjá því að stutt er þangað frá þjóðveginum og góð leið niður á bakkana utan Russárinnar. Reiðskörðin eru berggangur sem gengur út í Breiðafjörðinn, nefnast þar Skarðaköst. Fylgja má bergganginum frá Bæjarnefi innan Rauðsdalsbæjanna um Reiðskörðin og jafnvel á haf út undan Hvammi og aftur á land á Siglunesi að sögn Samúels Bjarnasonar er uppalinn var m.a. í Rauðsdal og var síðar bóndi í Hvammi. Það er gaman að ganga upp á Reiðskörðin og er myndin hér að ofan frá því sjónarhorni. Um þau liggur gata sem oft er þó tæp og ber því að fara varlega. Ofan af Skörðunum sjást vel þau mannvirki sem eru undir þeim, heljarmiklir garðar og beitarhús voru hér frá Rauðsdal. Í Reiðskörðum var aftökustaður og segir sagan frá þremur mönnum sem enduðu ævi sína hér. Bóndinn á Skarðstúni hér upp af Skörðunum, sér enn fyrir útihúsum þar ofan efsta túns, Hellu Bjarni sem kenndur var við bæinn sem hann bjó á, Hellu í Vatnsfirði, og Sveinn skotti, sonur Axlar-Bjarnar sem var aflífaður í Reiðskörðum árið 1648. Bóndinn á Skarðstúni og Hellu Bjarni voru sakaðir um þjófnað en Sveinn skotti hafði farið um landið með svíðingsskap og ofbeldi og var talinn réttdræpur utan sveitar sinnar sem var í Ísafjarðarsýslu. Löngum var talið reimt í Reiðskörðum vegna endaloka Sveins skotta hér.

Við höldum ferðinni áfram og látum þessar dimmu sögur fallegs staðar að baki okkur um sinn. Við höldum út fjöruna vestur ströndina, göngum ýmist fjöruna og leitum skelja eða leikum listir okkar á rekatré uppi á grónum og hörðum fjörubakkanum. Skemmtilegar skeljarákir myndast innan Reiðskarðanna og út fjöruna þar sem straumurinn ber fallegar litlar skeljar að landi – vel þess virði að krjúpa á kné fyrir og skoða hvort þar leynist ekki einhver dýrgripurinn. Um 1,5 km utan Reiðskarða, rétt innan Hrafnaness, er Ruddes, eða Rauðs dys (Ruddys) og þangað er ferðinni heitið. Þetta er stöndugur stuðlabergsstapi sem stendur einn og sér í fjörunni rétt við fjallsrætur, um metri að þykkt, einir 5–6 m á breidd og rúmar tvær mannhæðir. Í Örnefnaskrá segir að dys Rauðs í Rauðsdal hafi verið niður með klettinum. Ekkert er þó vitað um Rauð eða hvar heimildir aðrar er að finna um hann. Munnmæli herma að hann hafi verið landnámsmaður í Rauðsdal eða að hann hafi búið þar. Styðja örnefnin Rauðsdalur, Russá (Rauðsá) og Ruddys (Rauðs dys) dyggilega við það að Rauður eða eitthvað sem kennt er við rautt tengist svæðinu. Í Grímni, riti Örnefnastofnunar, segir að forskeytið „rauður“, „rauðs“ sé yfirleitt dregið af rauðum bergtegundum eða skriðum, slík heiti séu vanalega tengd rauðgrýti. Þetta gæti passað því að Rauðhilla er í klettunum hér ofar á Grafarhlíðinni. Hver veit? Hvað sem sögunni líður og hvort sem hér er dys Rauðs í Rauðsdal eða ekki er vel þess virði að ganga þennan stutta spöl að klettadrangnum. Yfir er Grafarhlíðin krýnd marglitum hrikalegum klettunum sem iða af lífi – fugl og fénaður á hér góðan bústað yfir sumartímann. Leiðin til baka að bíl er sú sama og hvorki löng né erfið.