Project Description
1
1-2klst.
1-6 km
50 m
Penna rennur um samnefndan dal, Penningsdal, ofan úr Lónfellshögum, Hellufjalli og Þverdal. Henni berst liðsauki Smjördalsár innan úr Smjördal, sem þá þegar er aukin af Mávánni sem kemur ofan úr Mávavötnum. Penna var fyrrum farartálmi og sagnir eru um að þar hafi menn látið lífið. Penna var mikil veiðiá en oft þótti erfitt að ná til fisksins vegna myndarlegra gljúfra hennar, helst var að fiska við árósa hennar. Í miðju gljúfrinu er bergstandur.
Penningsdalur liggur til norðurs upp frá Vatnsfirðinum við Flókalund og um hann liggur þjóðvegur 60, Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði. Þetta er því dalur sem er fólki að nokkru kunnugur en fæstir gefa sér tíma til að ganga um hann og skoða leyndardóma hans. Nafn dalsins er nokkuð sérstakt en ber þess vitni að beitiland er þar gott – búpeningsdalur. Nágranni hans, Smjördalurinn, vitnar um hið sama. Hér er gott að halda búpening. Dalurinn er nokkuð víður og um hann rennur samnefnd á, Penna. Penna er dragá sem rennur annars vegar úr Penningsdal, og ber nafn sitt af honum, og hins vegar Smjördal. Í Penningsdal renna í hana Þverfellsá og Lónfellshagaá sem kemur langt innan af hálendinu, auk ár sem rennur úr Smirlagili í austanverðum dalnum en ber ekkert heiti.
Áður fyrr var Penna talin talsvert erfið yfirferðar og sagnir eru til af því að menn hafi týnt lífi sínu þar. Vaðið á Pennu ef menn ætluðu norður í Suðurfirði Arnarfjarðar, var litlu ofan við það þar sem áin er brúuð uppi í við mynni Penningsdals og Smjördals. Litlu neðan gamla vaðsins er foss. Munnmæli segja að 18 manns hafi drukknað í Pennu.[1] Rennsli í Pennu fer mjög eftir því hvernig tíðin er líkt og dragáa er háttur. Í þurrkatíð er hægt að ganga um gilin sem Penna hefur grafið neðarlega í ánni og er það skemmtileg ganga og stutt frá vegi. Í miðju gilinu er klettadrangur, berggangur sem áin hefur sorfið í kringum og stendur keikur upp úr miðju gilinu til móts við tjaldstæði Flókalundar á Kýrholti. Klettadrangurinn og gljúfrin eru vel sjáanleg af brúnni sem er yfir ána við ósa hennar.
Brú var byggð á Pennu árið 1930 og önnur ofar 1958. Bílar keyrðu þó ekki um eldri brúna fyrr en um 1950 þar sem nær engir bílar voru í Barðastrandarsýslu og ekki akfærir vegir um Barðaströnd fyrr en 1951 og þá yfir Þingmannaheiði einnig. Bílvegurinn norður á Ísafjörð um Dynjandisheiði var opnaður 1959. Barðastrandarhreppur tengdist ekki vegakerfi annarra landsmanna fyrr en 1953 með vegi um Klettsháls[2].
[1] Kjartan Ólafsson. (2008). Firðir og fólk 900-1900. Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð, (vinnuhandrit, bls. 14).
[2] Ari Ívarsson. (2001). Þingmannaheiði og fleiri fjöll. Í Hallgrímur Sveinsson (ritstj.), Frá Bjargtöngum að Djúpi (bls. 7–35). Hrafnseyri: Vestfirska forlagið.