Project Description

Vatnsdalur

Vatnsdalur

Börn Söguganga Hringleið Fornminjar

Erfiðleikastig1-2
Tími göngu 1-3 klst.
Lengd göngu 2-5 km
Hækkun 50-100 m
Skoða á korti

Vatnsdalurinn hefur upp á að bjóða ýmsar gönguleiðir bæði stuttar og langar, léttar og erfiðar. Einnig er hægt að kasta fyrir fiski bæði í Vatnsdalsá og -vatni.

Vatnsdalurinn ber heiti sitt af vatninu sem fyllir hann, sem aftur ber heiti sitt af dalnum sem það fóstrar. Vatnsdalsvatn er eitt stæðsta stöðuvatn á Vestfjörðum, 2,4 km2, einir 3,5 km á lengd og víðast 500-1000 m á breidd, 35-45 m djúpt þar sem það er dýpst. Vatnsdalsvatn er aðskilið Vatnsfirðinum sjálfum með berghafti sem kallað er Eiði, og er vatnið í átta metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnsdalurinn er skógi vaxinn og fjöllin og skógurinn, vatið og áin skapa fallega umgjörð um þægilegar gönguleiðir beggja vegna vatnsins og inn að dalbotninum. Stikuð gönguleið er inn að Lambagili austa megin í Vatnsdalnum, upp með Lambagiljum og í hæð að Smiðjuhnjúkum og Smiðjukleifum. Þetta er hringleið með góðu útsýni yfir umhverfið.

Bílvegur er vestan megin vatnsins og inn fyrir vatnið. Þar var haldin þjóðhátíð Vestfirðinga árið 1974 og margmenni var í dalnum í blíðskaparveðri. Minni hátíðir voru haldnar í nokkur ár á eftir. Eftir þjóðhátíðina 1974 var það mál manna að Vatnsfjörðurinn væri einn fegursti staður á landinu og var það síðar tilefni friðlýsingar hans tveimur árum síðar árið 1976, og er Vatnsfjörðurinn nú friðlýst svæði frá Hörgsnesi austan vert í firðinum að Þverá í vestanverðum firðinum.

Vatnsdalur nær langt inn í hálendið og töluverður gangur er frá vatninu inn að ánum sem sameinast í Vatnsdalsá í fossum og flúðum lengst inni í dalnum. Árnar geta verið erfiðar yfirferðar og alls ekki alltaf færar. Gæta þarf sérstakrar varúðar þegar fara skal yfir þær og sleppa því þegar þær eru vatnsmiklar. Smalahella er innarlega í Vatnsdal. Þóttu menn ekki góðir smalar nema þeir kæmust þar yfir, en það er nær ógjörningur sökum þess hversu brött og sleyp hún er þar sem vatn rennur yfir hana.