Project Description

Sauðanes

Börn Söguganga Hringleið

Erfiðleikastig1
Tími göngu 1 klst.
Lengd göngu 3 km
Hækkun 20 m
Skoða á korti

Sauðanes lætur lítið yfir sér en er í raun magískur staður og býður upp á ýmsa möguleika til að njóta á einfaldan og fyrirhafnalausan hátt. Hér er sitt lítið af hverju, fjaran, sjórinn, sæslípaðir klettarnir, sagan bæði skemmtileg og drungaleg, fjallið yfir, hafflöturinn undir – hér getum við dvalið löngum stundum og notið þess sem Sauðanesið hefur upp á að bjóða. 

Sauðanes er við mynni Vatnsfjarðar, um þrjá km utan Brjánslækjar. Gott er að geyma bíl stuttu utan við tún á Sauðanesi þar sem vegurinn liggur næst fjöru í Skriðunum og ganga inn fjöruna eða fjörukambinn inn að Sauðanesi. Ýmislegt er hægt að finna í fjörunni bæði skeljar og reka s.s. flöskur og netakúlur. Sauðanesið sjálft er fallegt nes sem gengur fram í sjóinn, framundan því eru Sauðanesboðar sem geta verið hættulegir sjófarendum vari þeir sig ekki, en fellur langleiðina út að á stórstraumsfjöru á Góunni.

Stoðir Sauðanessins eru sjávarsorfnir klettar sem eru svo mjúkir að gott er að ganga berfættur á þeim. Fremst í Sauðanesinu er einn minn uppáhaldsstaður, lítil vík þar sem alltaf er lygnt sama hvernig viðarar, umheimurinn hverfur þegar maður sest þar niður og framundan er fjörðurinn með Sauðeyjunum duggandi á. Hrein og tær upplifun – orkuríkur staður og um að gera að njóta. Umhverfi Sauðanessins er síst minna spennandi: Merargilið fyrir ofan, Kerlingin, klettadrangur, utar í hlíðinni og Dysin skammt þaðan sem við lögðum bílnum okkar. Þar á presturinn á Brjánslæk að hafa kveðið niður draug sem sendur var á sýslumann í Haga.

Fremst í Sauðanesinu er byrðunginn af Helga VE 333 að finna, en hann fórst við Vestmanneyjar 7. janúar 1950 og 10 manns með honum. Brakið rak á Desjagrund (Dysjagrund) utan Sauðaness en var síðar fært fram í nesið.