Project Description
2
4 klst.
12 km
404 km
Kleifaheiði
Gömul og ný alfaraleið. Ganga um þrjá misgamla vegi. Kemur verulega á óvart því að eitt er að dvelja og njóta annað að þjóta. Það er s.s. allt önnur upplifun af því að keyra um Kleifaheiðina en að ganga misgamla vegina.
Gott er að hefja göngu yfir Kleifaheiði af eldri vegi neðst í Neðsta-Sneiðingi, þar sem næst elsti vegurinn beygði niður að brúnni á Ósánni. Leiðin liggur svo inn dalinn eftir vegslóða í átt að Bárðargili, en um dalinn miðjan er komið inn á gömlu götuna sem er nokkuð skýr í byrjun og vel skýr þegar á hana er komið, upphlaðin af og til. Gatan liggur út á Bárðargilið en tekur þar stefnu frá gilinu til vesturs og endar undir nýjum vegi í Neðsta-sneiðingi. Leiðin liggur um nýja veginn og upp í beygjuna við Bárðargilið en þar tekur gamli vegurinn við upp með ánni og er vel greinilegur og fallegur alla leið upp að Kleifakarli. Vörður eru á stangli, sumar veglegar aðrar aðeins brot.
Áningarstaður er við Kleifabúa og er ágætt að taka upp nestið sitt og nýta sér nestisaðstöðu. Leiðin áfram yfir heiðina liggur yfir ána og áfram yfir mýrar, holt og mela vestanverðu í heiðinni. Yfirleitt er gatan hér nokkuð greinileg, en þó svo að menn fari ekki nákvæmlega í spor þeirra sem áður gengu hér um kemur það ekki að sök þar sem hér er létt að ganga um og vörður mjög tíðar enda oft þokusælt á þessum slóðum. Þegar upp Bröttubrekku er komið eru tvær minni brekkur upp á háheiðina en þar er Skarðsvarðan – stór og stöndug varða, vel faðmur á breidd og rúmir tveir metrar á hæð.
Af háheiðinni liggur leiðin inn á nýja veginn og yfir á þann næst elsta og þriðja elsta nokkru ofar í um 400 m. hæð. Afleggjari er af nýja veginum inn á þá eldri og sýnilegar vörður uppi á hæðinni. Gott er að fylgja næstyngsta veginum að Hjallendalág, en þar verður elsti vegurinn aftur mjög greinilegur beint yfir lágina. Hann er uppbyggður að hluta og brúaður að þeirra tíma hætti.
Þegar upp úr Hjallendalánni kemur er eðlilegt framhald að ganga næst yngsta veginn undir klettunum þrátt fyrir að vörðurnar séu uppi á þeim. Þegar veginum hefur verið fylgt í um einn kílómeter vísar varða okkur leiðina út af honum, efst af Girðisbrekkum og inn á elstu götuna aftur. Við eltum vörðurnar en förum þó ekki alveg að þeim, vegurinn liggur samsíða þeim.Höldum svo áfram eftir vörðunum með Haukabergsvaðalinn, Breiðafjörðinn og Snæfellsnesið framundan – þvílík dásemd. Bráðlega sjáum við fyrir endann á ferðinni, tyllum okkur hjá vörðu efst á brekkunni og horfum yfir alla dýrðina – góður áningarstaður. Skoppum svo niður síðustu metrana og göngum að bíl við Haukabergsá.