Project Description
Léttleiki: 1
Tími: 1 – 3 klst
Lengd: 4-7 km
Hækkun: 20 – 200 m
Slóð: Smiðjukleifar og Lambagil
Þingmannaáin og umhverfi hennar hafa ýmislegt að bjóða þeim sem vill eiga rólegan dag í fögru umhverfi. Það eru fossarnir, vörðurnar, gamla skógræktin, smiðjan og kyrrðin og náttúran – fuglarnir, berin og sveppirnir. Það er bara að njóta. Ef okkur fýsir að ganga lengra í orðsins fyllstu merkingu getum við rölt hlíðina inn að Lambagiljum og láglendið til baka.
Þingmannaá rennur eina átta km ofan af Þingmannaheiði og Brunadölum fremri og heimari og liggja vegurinn og vörðurnar að stórum hluta með henni. Gönguleið liggur frá vegi upp Mörkina og upp með ánni að Smiðju Gests Oddleifssonar sem er við lygnu á ánni nokkuð upp af brúnni, en önnur leið er litlu ofar að smiðjunni frá gamla akveginum í Mörkinni. Fylgi maður veginum sem fer upp í gegnum Mörkina og varðar upphaf Þingmannaheiðar, er hægt að ganga inn á gömlu gönguleiðina um Þingmannaheiði út af akveginum gamla, rétt ofan háu brekkunnar sem útilokar bílaumferð sem ekki hefur yfir að búa fjórhjóladrifi. Í árgljúfrinu gefur að líta fallega fossa og gengt er á bakvið einn þeirra. Sá foss er tökustaður nokkurra atriða úr kvikmyndinni Útlaganum og þáttunum um Nonna og Manna sem RÚV tók upp fyrir 1990.
Ekki er úr vegi að rölta yfir í gömlu skógræktina sem er uppi undir Smiðjuhnjúkunum og skoða hversu vel trén hafa vaxið, það er í raun með ólíkindum. Fallegt útsýni yfir Vatnsdalsvatn og Vatnsfjörð. Stikuð leið um Smiðjuhnjúka liggur allt fram að Lambagiljum og heim með Vatnsdalsvatni þannig að gera má hringferð úr ferðinni.