Project Description

Fjallahringurinn

Hringleið

Erfiðleikastig3
Tími göngu 5-6 klst.
Lengd göngu 14-15 km
Hækkun Hæst 610 m

Hringganga um fjallahringinn ofan Seftjarnar og Brjánslækjar. Hestmúli (318 m), Kikafell (610 m),  ónefnd fjallsbunnga, Nónborg (455 m), Moshlíð. Skemmtileg en nokkuð erfið og löng útsýnisleið yfir Vatnsfjörð og innri hluta Breiðafjarðar. Undirlag er sambland af melum, stórgrýti og mosaþembum. Er til eitthvað skemmtilegra en ganga fjallabrúnir og toppa?!

Upphaf göngu er innan Brjánslækjar og Seftjarnar og sama leiðin er valin og farin er upp í Surtarbrandsgil. Þegar Surtarbrandsgilsleiðin liggur að ánni ofan girðingarinnar, veljum við að fara upp vegslóða sem liggur upp að Hestmúla. Við beygjum af vegslóðanum þegar hann hentar okkur ekki lengur við að komast beint upp á horn Hestmúlans. Þegar þangað er komið þræðum við eystri brúnir Hestmúlans sem leiða okkur langleiðina inn í Lækjarskarð. Þegar á jafnsléttu er komið upp af Hestmúla er stefnan tekin á Kikafell, upp stórgrýtisurð og nokkuð á brattann. Þetta er engu að síður ágæt uppganga, tekur a.m.k. ekki langan tíma. Á Kikafelli var mælingarvarða, svokölluð trígómetrísk varða. Í hvert sinn er ég kem þar þarf að endurhlaða vörðuna. Af Kikafelli er stórkostlegt útsýni og sér nær um allan Barðastrandarhrepp.

Við höldum nú sem leið liggur niður af Kikafelli og tökum stefnuna í suðaustur yfir á ónefnda klettabungu upp af Lækjarbungu og Bollabungu. Við erum komin vel í hæð og þurfum því aðeins að lækka og hækka okkur um 100–150 m. Líklega er ástæða þess að fjallið heitir ekkert sú að það er ekki áberandi frá bæjunum undir henni, en af Hjarðarnesi lítur bungan út fyrir að vera myndarlegt fjall og það reynum við þegar við göngum upp hana, þægilega aflíðandi halla með einstaklega skemmtilega veðruðum steinmyndunum. Héðan liggur leiðin fyrir Bollann norðan Nónborgar og yfir á Nónborgina sjálfa sem er eyktarmark frá bæjunum undir henni. Nónborgin er falleg 455 m há klettaborg í Blanknum. Í miðri Nónborginni er áberandi gil sem gott er að æja í og virða fyrir sér veröldina fyrir neðan. Þetta er skemmtilegt sjónarhorn á Vatnsfjörðinn.

Þá liggur leiðin niður á við og best er að fara út mestallan Nónborgarhjallann, einnig nefndar Moshlíðarbrúnir. Þaðan tökum við stefnuna niður á Moshlíðardal, allbrattan dal sem liggur upp af Moshlíð. Nokkur brekka er af Hærra fjallinu niður á Lægra fjallið, en svo heitir hér. Þegar við erum komin niður göngum við til norðvesturs í fyrstu eftir breiðum hjalla og svo í norður niður Moshlíðardalinn. Síðasti spölurinn getur tekið á fótafúna ferðalanga því að dalurinn er brattur. Nokkuð erfitt getur verið að finna leiðina niður á hornið uppi yfir Moshlíðaránni neðst í dalnum, en þá er að stefna á gilskorningana að austanverðu sem undirstrika misgengi í fjallinu og finna þar hornið, líklega er þar lítil varða, og feta sig svo niður kindagötur. Nú getum við valið um að ganga niður Moshlíðina niður á veg eða inn Holt og hluta af gamla veginum sem lá heim að Brjánslæk, kirkjustaðnum og gamla húsinu og svo að bíl rétt innan við bæina.

Á myndinni sér yfir Vatnsfjörð af Moshlíðarbrúnum.