Project Description

Flókatóftir

Flókatóftir

Börn Söguganga Hringleið Fornminjar

Erfiðleikastig1
Tími göngu 10 mín
Lengd göngu 200 m
Hækkun engin
Skoða á korti

Ganga að Flókatóftum er bæði stutt og skemmtileg. Tilvalið er t.d. að skottast þangað á meðan beðið er eftir flóabátnum Baldri. Við sjáum Lónfellið gnæfa yfir Vatnsfjörðinn í hánorðri – sama sjónarhorn og Hrafna-Flóki og hans fólk hafði. Við getum sett okkur í spor þeirra og gengið á fjallið, með augunum ef ekki gefst betri tími, og ýtt síðan frá, líkt og hann forðum daga en vonandi með betri minningar frá dvöl okkar!

Flókatóftir eru tóftir sem kenndar eru við Hrafna-Flóka Vilgerðarson sem sagt er að hafi haft hér vetursetu á 9. öld og gefið landinu nafnið Ísland eftir þá dvöl. Þannig segir í Sturlubók Landnámubókar:

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill. Hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar út er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. … Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta fló sá aftur um stafn. Annar fló í loft upp og aftur til skips. Hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt sem þeir fundið landið. … Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið. Þeir Flóki ætluðu brott um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. … Flóki var um veturinn í Borgarfirði … Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs. Og er menn spurðu af landinu þá lét Flóki illa yfir en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur sagði drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið. Því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Í Hauksbók Landnámu segir: „[þ]ar sér enn skálatóft þeira inn frá Br(i)anslæk ok svá hrófit ok svá seyði þeira.“[1] Nokkur athugun hefur farið fram á því hvort þessi orð Hauksbókar geti verið sannleikanum samkvæmt. Greindar hafa verið 13 tóftir á grundinni og er góður uppdráttur af þeim á skilti þar hjá, auk þess sem tiltölulega auðvelt er að finna þær. Hluti tóftanna er frá 20. öld, bær, fjárhús og naust, hét Flókagrund eða Grund. Sumarið 2013 fóru fram C14-aldursgreiningar á tveimur tóftum og niðurstöður þeirra sýna að stór tóft uppi við klettana virðist vera frá 11. öld og ferköntuð lítil tóft lengst til suðurs frá 8. öld. Gefið er í skyn að 11. aldar tóftin sem er stór og sambyggð annarri tóft geti verið víkingaskáli. Einnig að 8. aldar tóftin geti verið jarðhýsi. Margir hafa skoðað tóftirnar og bæði efast og sannfærst um að hér sé um Flókatóftir að ræða. Frá tóftunum á grundinni rís Lónfellið í hánorður upp af Vatnsfirðinum, tilvalinn útsýnis- og yfirlitsstaður fyrir þann sem kannar umhverfi sitt.

[1] Íslensk fornrit I. (1968: bls. 39 (H 5)).