Project Description

Sandsheiði

Söguganga Gömul alfaraleið Fornminjar

Erfiðleikastig2
Tími göngu 6 klst.
Lengd göngu 17 km
Hækkun 488 m
Skoða á korti Sandsheiði

Afar skemmtileg gömul alfaraleið milli Barðastrandar og Rauðasands. Nú hljóð og aflögð og utan alfaraleiðar. Fallegt er á Sandsheiði, klettamyndanir, stuðlaberg, Molduxar, lítil fjallavötn, Skarðabrúnir yfir öllu saman og Patreksfjörðurinn undir – ekki lítið það. 

Upphafsstaður leiðar á Rauðasandi er Móberg en á Barðaströnd er beygt út af vegi 62 rétt áður en lagt er á Kleifaheiði og keyrt eftir vegi 611 í um tvo km og bíl lagt áður en komið er að brú yfir Holtsá, við Haukabergsrétt. Gengið er upp Akurgötu sem liggur norðan megin í Holtsdal, gatan er yfirleitt ágætlega greinileg en þó í skógi og lyngi. Þegar ofar dregur eru góðar vörður. Hækkun er 488 metrar en tekin út á löngum tíma og virkar því óveruleg. Gengið er um Þverárlautir yfir Þverár, Ytri og Innri og upp Systrabrekkur sem heita svo því að þær eru mjög líkar brekkurnar – einar tvær eða þrjár.[1] Leiðin liggur upp í  Vatnskleifar og Vatnskleifahorn.

Nokkru norðan við Vatnskleifahorn er Hvarfshóll, einnig nefndur Hvasshóll, og er þar háfjallinu náð. Af Hvarfshól er útsýni til Patreksfjarðar frá alveg nýju sjónarhorni og gaman er að á þar og virða umhverfið fyrir sér, enda rólegheitar ganga framundan. Í norðaustri sést vel til Þórðarhyrnu (608 m), Haukabergsfells (573 m), Ármannsfells (708 m), Klakks (699 m), Breiðafells (744 m) og Hádegisfjalls (684 m) og Skarðsfells (688 m) upp af Reykjafirði sem saman ramma inn  Reykjafjarðarskarð (500 m).

Yfir Sandsheiðinni gnæfa Skarðabrúnir í um 100 – 200 metra hæð. Þær marka hreppamörk gamla Rauðasands- og Barðastrandarhrepps og er fjallseggin svo þunn sums staðar að gat er í hana og hægt að horfa í gegn. Hæst rísa þær í 703 m og heitir þar Napi. Hér nyrst bera þær nafnið Vatnskleifar og er auðvelt að ganga upp þær. Syðst enda Skarðabrúnir í Stálfjalli í 650 m hæð og þverhnýpi. Ganga á Skarðabrúnir er hvoru tveggja erfið og krefjandi vegna stórgrýtis og oft á tíðum erfiðleikum með að finna rétta leið. Útsýni af Skarðabrúnum er aftur á móti stórkostlegt með Barðströndina á aðra höndina og Rauðasand á hina. Barðstrendingar og Rauðsendingar styttu sér þó leið yfir skörðin um Göngumannaskörð sem eru upp af Hreggstöðum og Skriðnafelli.

Við höldum áfram Sandsheiðina frá Hvarfshól. Gatan er vel greinileg á heiðinni og vörðuð góðum vörðum – bæði vönduðum og greinilegum, en einnig stikum meirihluta leiðarinnar þar sem vörðunum sleppir. Undirlag er gott og góður hluti háheiðarinnar er svo til á jafnsléttu, heitir enda Gljá, sbr. slétt. Hér af háheiðinni lá leiðin um Hrossagötuskarð niður að Koti. Leiðin liggur áfram niður Þrífarabrekkur og yfir Þrífaralæk sem ber nafn sitt af því að vegurinn liggur þrisvar yfir hann.[2] Niður Þvergil, Steinabrekkur, Hærri og Lægri,  yfir Skógará um Skógardal að Móbergi. Nokkuð neðarlega í Skógardal neðan Leitis er Hofmannsflöt. „Þar munu höfðingjar þeir, er áttu leið yfir heiðina og voru á leið til Bæs … á Rauðasandi eða þaðan, hafa áð hestum sínum.“[3]

Hér er gatan farin að mást út fyrir tilstilli gróðurs en leiðin hefur verið stikuð, þó ekki alltaf þar sem gamla gatan liggur – en nægjanlega nærri henni. Göngufólk gengur fram á Gvendarstein og leyfir sér e.t.v. að setja stein eða steina á steininn í þakklætisskyni eða bara til virðingar við gamlar sagnir og hjátrú. En sagan segir að leggi menn þrjá steina á steininn áður en haldið er á heiðina, þá Rauðasands megin fra, komist þeir villulaust yfir.[4]

[1] Örnefnaskrá. Holt. Bjarni Þorvaldsson, 1978.
[2] Örnefnaskrá, Sandsheiði, Helgi Guðmundsson, 1933.
[3] Örnefnaskrá, Sandsheiði, Helgi Guðmundsson, 1933.
[4] Guðlaugur Reynisson, samtal við hann 2012.